Svo kann að fara að Landic Property muni knýja Stones Invest í gjaldþrotaskipti ef félagið endurgreiðir ekki þá rúmu tvo milljarða íslenskra króna sem Landic Property var búið að inna af hendi vegna sölunnar á Keops Development sem nú hefur gengið til baka.

Ljóst er að fjárhagsstaða, eða að minnsta kosti lausafjárstaða, Stones Invest er orðin mjög erfið og félagið hefur m.a. ekki staðið skil á greiðslum vegna fasteignakaupa í Vejle og útilokar seljandi eignanna heldur ekki að hann muni fara með það mál í hart ef ekki verður staðið skil á greiðslum fyrir 1. september. Stones Invest mun stefna að því að losa um eignir en óvíst er hvernig það mun ganga og hvaða verð fæst fyrir.

Í frétt Børsen af málinu er haft eftir Michael Sheikh, framkvæmdastjóra hjá Landic Property, að hann hvetji Stones Inevst til þess að greiða Landic Property umrædda upphæð hið snarasta og að leggja fram skrifleg gögn vegna hugsanlegra mótkrafna.

Sheikh, sem nú hefur tekið við stjórn Keops Development, segist ekki útiloka að farið verði fram á gjaldþrotaskipti yfir Stones Invest til þess að fá kröfuna greidda.

Sheikh segist ekki reikna með að reynt verði að selja Keops Development aftur í bráð. Spurður um fjárhagsstöðuna viðurkennir Sheikh að lausafjárstaða Landic Property sé ekki auðveld en tekur fram að þrátt fyrir að félagið þurfi að yfirtaka aftur starfsemi Keops Development muni það þó spjara sig með eigin sjóðstreymi og lánafyrirgreiðslum.