Skuldatryggingaálag íslensku bankanna lækkaði verulega í gær; Glitnis og Kaupþings um 100 punkta og Landsbanka um 75 punkta, samkvæmt upplýsingum frá Royal Bank of Scotland um miðjan dag í gær.

Álag á fimm ára skuldatryggingar Glitnis var 450 og 550 punktar, eftir því hvort um var að ræða kaupeða sölutilboð, Kaupþings 450 og 525 punktar og Landsbanka 300 og 375 punktar.

Álagið hefur hrapað síðan um mánaðarmótin, þegar það var yfir 1.000 punktum hjá Glitni og Kaupþingi.

Benedikt Stefánsson, sérfræðingur við greiningardeild Landsbankans, segir að enginn sérstakur atburður gefi tilefni til þessarar miklu lækkunar sem orðið hefur að undanförnu á skuldatryggingaálagi bankanna.

„Skuldatryggingaálag íslensku bankanna hefur stjórnast mikið af aðstæðum erlendis, frekar en því sem hefur gerst hér á markaði - möguleikum bankanna til að ná sér í lánsfé eða öðru. Það hefur enginn einstakur atburður komið fram sem getur beinlínis skýrt þetta. Þó hafa viðskipti með skuldabréf bankanna á eftirmarkaði verið virkari að undanförnu sem veldur því að skuldatryggingamarkaðurinn verður einnig kvikari. Önnur möguleg skýring er að menn séu að hræðast úr skortstöðum gagnvart íslensku hagkerfi, þótt við höfum engar beinar sannanir þess efnis,“ segir Benedikt.

Hann bendir einnig á að iTraxx vísitalan, sem sýnir álag hjá stærstu fjármálafyrirtækjum heims, hefur farið lækkandi síðan í byrjun apríl og byrjaði álag íslensku bankanna að lækka um líkt leyti í takt við lækkun vísitölunnar.