Vonir standa til að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum fljótlega, jafnvel á þessu ári, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni ræðir um lærdóminn af góðærinu, bankahruninu og endurreisninni í samtali við norska dagblaðið Aftenposten . Þar kemur sömuleiðis fram að gjaldeyrishöft standi ekki í vegi fyrir því að erlendir fjárfestar flytji hingað fjármagn. Þau myndi hins vegar sálrænar hindranir.

Spurður hverjum sé að kenna um bankahrunið segir Bjarni það skrifast á hið klassíska, græðgi. Þetta muni endurtaka sig og efnahagslífið taka dýfu á ný einhvern tíma í ófyrirséðri framtíð. Hann bætir því sömuleiðis við að stjórnarflokkarnir sem voru við völd mestan hluta á árunum fyrir hrun hafi ekki staðið sig í eftirlitinu með bönkunum auk þess sem eigendur bankanna hafi tekið of mikla áhættu.

„Ekkert getur stöðvað kreppu. En við getum dregið lærdóm af því sem hefur skeð til að draga úr áhættunni og vernda almenning,“ segir hann.