Lárus Ólafsson, SVÞ
Lárus Ólafsson, SVÞ
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ekki er útilokað að fyrirtæki láti reyna á lög um bann við innflutningi á kjúklingi og svínakjöti hingað frá Evrópu, láti stöðva sig í tollinum og fari með málið fyrir dómstóla. „Það er bagalegt að það þurfi að láta reyna á þetta en það er gífurlega mikilvægt að láta skera úr um lögmæti innflutningsins,“ segir Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag telur Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að bann við innflutningi á ferskum og unnum kjötvörum hingað til lands frá öðrum ríkjum brjóti í bága við EES-samninginn og fela í sér óréttmætar viðskiptahindranir. ESA hefur þegar sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf vegna málsins. Fallist ESA ekki á rök stjórnvalda fyrir banninu er ekki útilokað að ESA fari með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Það voru Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sem sendu þann 6. desember árið 2011 kvörtun til ESA vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð Evrópusambandsins (ESB)  um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Lárus segir í samtali við VB.is SVÞ ekki hafa fengið bréfið frá ESA en óskað eftir afriti af því. Hann segir þó að ESA taki undir sjónarmið og röksemdir SVÞ.

Hann bendir á að nú þurfi að bíða og sjá hvað stjórnvöld geri í málinu. Á sama tíma sé ekki loku fyrir það skotið að einhver fyrirtæki láti reyna á bannið og flytji inn kjöt frá Evrópu.