Að sögn Halldórs Kristmannssonar, talsmanns Actavis, hefur félagið ekki tekið ákvörðun um að bjóða í samheitalyfjadeild Merck en Halldór staðfesti við Viðskiptablaðið áhuga félagsins á að bjóða í Merck. Formlegt söluferli er ekki hafið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti kaupverðið á samheitalyfjadeild Merck verið á milli fjögurra og fimm milljarða evra eða á milli 360 og 400 milljarða króna.

"Samheitalyfjadeild Merck er þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi og við teljum að það ætti að geta passað býsna vel við Actavis í dag og styrkt okkar stöðu í Bandaríkjunum, suður-evrópu og víða í vestur-evrópu," sagði Halldór.

Ef af kaupunum yrði væri Actavis eitt af fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjum Bandaríkjanna, stærsta félagið í Frakklandi og Portúgal og í hópi þeirra stærstu á helstu lykilmörkuðum.