Breska verðbréfafyrirtækið Cenkos Securities sendi frá sér tilkynningu í dag þess efnis að áhugi þeirra og Landsbankans [ LAIS ] á breska fjármálafyrirtækinu Close Brothers Group sé enn til staðar. Greint var frá þessu í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Þann 8. nóvember síðastliðinn sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þar sem fram kom að bankinn hafi í samvinnu við Cenkos átt í viðræðum við stjórn Close Brothers í því skyni að kanna grundvöll þess að gera yfirtökutilboð í félagið á genginu 950 pens á hlut. Jafnframt var tekið fram að viðræðurnar væru á frumstigi.

Nýta sér markaðsaðstæður

Út frá fréttatilkynningu Cenkos má lesa að félagið ætlar að nýta sér þann óróleika sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum undanfarið og ætlar ekki að hækka tilboð sitt sem er 950 pens á hlut. Cenkos bendir á að FTSE 250 vísitalan hafi lækkað um 4,9% frá því að tilboðið var lagt fyrir stjórnina og fram til gærdagsins og ef gengi Close Brothers hefði lækkað jafnmikið þá væri gengið á félaginu 723 pens sem er 31% frá yfirtökutilboðinu.

Lokagengi Close Brothers í dag var hins vegar 896 pens sem er 18% hækkun frá 7. nóvember og 6% frá yfirtökutilboðinu. Greiningaraðilar í Bretlandi hafa gefið í skyn að tilboðið þurfi að hljóða upp á 1.100 pens á hlut til að vera samþykkt. Ef kaupin ganga í gegn á 950 pens á hlut er markaðsverð á móti eigið fé, V/I hlutfallið, 1,89x ef miðað er við eigið fé 30. september. Gangi viðskiptin eftir hefur Landsbankinn í hyggju að kaupa bankastarfsemi Close Brothers en Cenkos mun halda eftir öðrum þáttum starfseminnar, samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.