Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja eru jákvæðar á samruna Stork Food Systems og Marels, ef af verður. Er meðal annars nefnt til sögunnar að félögin eru í líkum rekstri en með mismunandi áherslur, að EBIT framlegð Stork Food Systems er nokkru betri sem sé fagnaðarefni fyrir Marel og að Marel sé vel statt til ytri vaxtar eftir velheppnað hlutafjárútboð.

Gengi Marels hækkaði um 0,63% í dag í 27 viðskiptum sem nema samtals um 103 milljónum króna en síðastliðinn föstudag hækkaði gengi félagsins um 3,2%, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Fréttatilkynning Marels

Marel sendi frá sér í morgun fréttatilkynningu um að það væri ekki í formlegum viðræðum við Stork Food System um sameiningu en vildi þó koma á framfæri að það hefði átt óformlegum viðræðum um hugsanlegt nánara samstarf.

Náið samstarf

?Marel hefur lengi átt í nánu samstarfi við Stork Food Systems og var það aðal ástæða þess að Landsbankinn, Marel og Eyrir Invest stofnuðu félagið LME sem keypti 8% hlut í Stork N.V. á fyrri hluta ársins. Töldu þessir aðilar nauðsynlegt að eignast hlut í Stork til að tryggja áframhaldandi samvinnu milli Marel og Stork Food Systems," segir greiningardeild Kaupþings banka

Tilgangur stöðutöku Marels í Stork

?Tilgangurinn með hlutabréfakaupunum var að styrkja stöðu Marels ef til breytinga kæmi hjá Stork Food Systems, sem er innan við 10% hluti af Stork samstæðunni. Stork er í fjölþættri starfsemi og það er ekki augljóst að Stork Food System eigi áfram samleið með samstæðunni. Segja má að þróunin að undanförnu hjá Stork sé í samræmi við það sem stjórnendur Marels höfðu búið sig undir," segir greiningardeild Landsbankans.

Líkur rekstur

?Stork Food Systems er í líkum rekstri og Marel, þ.e. framleiðir framleiðslutæki og -tól fyrir matvælaiðnaðinn. Stork leggur auk þess, ólíkt Marel, áherslu á framleiðslu á tækjabúnaði fyrir drykkjavörur, t.a.m. mjólk og safa. Á síðasta ári velti Stork Food Systems 171 milljón evra [14.836 milljónir króna ] (við spáum Marel 212 milljónum evra [18.393 milljónir króna] veltu í ár til samanburðar) og var EBIT framlegðin 11,7% sem telst hátt í samanburði við Marel. Félagið er því í mjög góðum rekstri og ljóst er að eftir miklu er að slægjast fyrir Marel. Marel hefur gott svigrúm til frekari ytri vaxtar eftir vel heppnað hlutafjárútboð nýlega," segir greiningardeild Glitnis.

Marel með fjárfestingargetu upp á 20-30 milljarða

? [...] hefur Marel fjárfestingargetu upp á 20 til 30 milljarða króna eftir nýafstaðið hlutafjárútboð. Þá teljum við líklegt að ytri vöxtur sem þessi muni að stórum hluta skila sér í bættri afkomu félagsins og aukinni arðsemi fyrir hluthafanna," segir greiningardeild Landsbankans.

Hvað ef Stork kaupir Marel?

Greiningardeild Landsbankans nefnir að í fréttum hafi komið fram að stjórn Stork vilji selja Stork Food Systems úr félaginu en forstjórinn vilji stækka félagið, t.d. með yfirtöku á Marel.

?Ef til þess kæmi má gera ráð fyrir að gengi bréfa Marels yrði talsvert hærra en það er á markaði nú, annars vegar vegna lægri ávöxtunarkröfu og hins vegar vegna yfirtökuálags. Við áætlum að virði bréfa Marels við þessar aðstæður gæti verið a.m.k. 20%-30% yfir verðmati okkar á félaginu í dag," segir greiningardeild Landsbankans.