Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Köru, hefur áhyggjur af því að tregða í kerfinu komi Íslandi illa og að kerfið sé ekki tilbúið fyrir fjórðu iðnbyltinguna.

Það er mikið talað um hvaða störf róbótarnir taka við en ekkert um hvað vex,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og eigandi og stofnandi Kara Connect. „Allt sem tengist samskiptum og samkennd og sköpun, það á eftir að vaxa.“ segir Þorbjörg Helga. Fyrirtækið er hugbúnaðarfyrirtæki sem rekur nokkurs konar markaðstorg þar sem sérfræðingar á borð við sálfræðinga og talmeinafræðinga geta tengst skjólstæðingum með auðveldum og skjótum hætti á netinu. Allt þetta er hugsað til að bæta aðgengi, draga úr kostnaði og gera sérfræðingum kleift að gera það sem þeir gera best.

„Við setjum þetta upp eins og samskiptaforrit þar sem þú leitar hjá Köru að sérfræðingum, en raunverulega erum við að búa til ótrúlega gott forrit fyrir sérfræð­ inga þannig að þeir geti bara sett upp bisness á fimmtán mínútum og byrjað að bjóða sig til sölu sem með­ ferðaraðili, kannski einn dag í viku. Og það kostar þá nánast ekki neitt. Á móti erum við að búa til forritin sem þá vantar, bókunarforrit, leysa ritara af hólmi og leysa vandann sem skapast þegar fólk mætir ekki í tíma, sem gerist mjög oft.“

Gátu aldrei spáð fyrir um kostnaðaraukningu

Hvað varð til þess að þú fórst í þetta eftir stjórnmálin? „Þegar ég fór úr borginni var þetta eitt af því sem ég hafði bent mjög mikið á, stigvaxandi kostnað við þessa þjónustu. Við gátum aldrei spáð fyrir um aukninguna með alla svona hjálp. Ég var hægrisinnaða týpan sem vildi að peningar fylgdu einstaklingum þannig að fólk sæi hvert peningarnir fóru. Þetta truflaði mig mjög lengi þannig að ég skrifaði niður það sem ég er enn pínu reið yfir að hafa ekki komið í gegn. Þá prófaði ég þetta fyrst með talmeinafræðingum.“ Sú tilraun varð að Tröppu, fyrirtæki sem kemur talmeinafræð­ ingum í samband við skjólstæðinga sína gegnum netið. Kara sprettur svo upp úr Tröppu.

„Þá tengdumst við tækniteymi, sem eru líka eigendur að Köru, og búum til forrit þar sem fleiri „Tröppur“ gætu orð­ ið til,“ segir Þorbjörg Helga. „Við leituðum að einhverju sambærilegu fyrir Tröppu en fundum ekki, svo við ákváðum að búa það til sjálf. Á sama tíma varð til það sem heitir WebRTC, sem er öruggur myndfundur á netinu. Það var enginn kominn með svoleiðis þannig að við ákváðum að slá til.“

Flestar dyr í kerfinu lokaðar

Þorbjörg Helga segir stjórnkerfið á Íslandi bregðast hægt við þeirri þróun sem Kara býður upp á. „Við erum hins vegar í samskiptum við sveitarfélög og fyrirtæki í Danmörku og fyrirtæki í Svíþjóð að innleiða þetta. Við heimsækjum þau núna í haust. Hérna heima er svo til dæmis Kópavogsbær að skoða hvort bærinn geti ekki notað þetta fyrir sitt starfsfólk, sem væri þá ekki á því markaðstorgi sem Kara er á en nota samt forritið. Þá er kannski frábær námsráð­ gjafi í Vatnsendaskóla, sem gæti þjónustað einhvern annan skóla í bænum. Þetta er byltingin sem ég sé fyrir mér. Að besta þjónustu sérfræðinga, leyfa þeim að vera sérfræðingar og sérhæfa sig.“

Þannig þurfi þeir ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af rekstrarhliðinni. „Það er líka allt of mikil skriffinnska og allt of mikið um að stofnanir séu ekki að tala saman innan þessa málaflokks,“ segir Þorbjörg Helga. Kara fékk styrk frá Tækniþróunarsjóði upp á 45 millj­ ónir í þrjú ár. Hins vegar hefur reynst erfitt að nýta þá peninga til að bæta þjónustu við fólk á Íslandi vegna tregðu í kerfinu.

„Ég hef séð svona styrki fara forgörðum vegna þess að þetta eru fyrirtæki sem eru að hjálpa hinu opinbera að breytast, hagræða og tæknivæðast en það opnast engar dyr. Það er engin stofnun tilbúin að opna fyrir okkur, þó að við komum inn með peninga. Við erum búin að reyna okkar allra besta, höfum heimsótt alla ráðherra og stofnanir. Kannski er það álagið sem stoppar þetta en ég held líka að það sé skortur á framtíðarsýn og skortur á því að segja að ríkið muni ekki geta tekið þátt í öllum þessum kostnaði til lengri tíma, við þurfum alls konar tilraunir til að auka framlegð og aðgengi og minnka kostnað. Það er alveg gríðarlegur munur á því hvað þú getur afgreitt marga tíma ef þú bætir þessu við rekstur stofu. Og svo eru heilu samfélögin úti á landi sem hafa ekki séð þessa þjónustu. Það er náttúrulega til skammar fyrir okkur sem þjóð,“ segir Þorbjörg Helga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .