Fjárfestar undir forystu Birgis Þórs Bieltvedt keyptu nýverið fyrirtækið Pizza-pizza ehf. sem er umboðaðili Domino’s Pizza International á Íslandi.Birgir keypti Domino’s Pizza á 210 milljónir króna en ef vaxtaberandi skuldir eru taldar með var hei lda rkaupverðið 560 milljónir. Birgir stofnaði Domino’s Pizza á Íslandi árið 1993 og kom að rekstri þess fram til ársins 2005. Þegar Birgir seldi Domino’s árið 2005 var söluverðið í kringum 1.100 milljónir króna.

Domino’s veldið Birgir útskrifaðist frá Verslunarskólanum árið 1987. Því næst stundaði hann nám í Parsons School of Design í New York og útskrifaðist með BA gráðu í viðskiptafræði með markaðsfræði sem sérgrein árið 1992. Það sama ár flutti hann til Íslands hóf rekstur á Domino’s Pizza árið 1993. Birgir gengdi starfi framkvæmdastjóra Domino’s á Íslandi við stofnun en hætti störfum árið 1996 er hann fluttist til Danmerkur þar sem hann hugði á útrás félagsins. Birgir opnaði fyrsta Domino’s Pizza staðinn í Danmörku árið 1997. Hann rak Domino’s í nokkur ár sem minnihlutaeigandi og framkvæmdastjóri en keypti aðra hluthafa út, bæði úr danska og íslenska félaginu, árið 2004.

„Ég hef alltaf horft til baka til Domino’s á Íslandi og haft mikinn áhuga á því að eignast það aftur og gera að fjölskyldufyrirtæki. Sérstaklega í ljósi þess að ég réðst í það að setja upp Domino’s Pizza í Þýskalandi þar sem ég opnaði fyrsta staðinn haustið 2010,“ segir Birgir. Hann seldi félagið í Þýskalandi til Domino’s Pizza í Englandi og ætla þeir sér að opna á milli 400 og 500 staði í Þýskalandi á næstu 10 árum. Birgir Þór Bieltvedt hlaut frumkvöðlaverðlaun Domino’s Pizza International árið 2000 meðal annars fyrir uppsetningu á fyrstu heima- og sölusíðu Domino’s Pizza í heiminum.

Mikill fjárfestir

Birgir leiddi hóp fjárfesta sem festu kaup á Magasin du Nord í Danmörku árið 2004 og seinna samkeppnisaðilann Illum. Sat hann sem varaformaður stjórnar í báðum félögunum. Þá leiddi hann einnig hóp fjárfesta í kaupunum á danska fatafyrirtækinu DAY by Birger & Mikkelsen þar sem hann hefur setið sem starfandi stjórnarformaður frá árinu 2005 og er það nú hans aðalstarf. Fyrir utan þessar stóru fjárfestingar hefur Birgir verið hluti af hlutahafahópi í danska félaginu Joe & The Juice þar sem hann var einnig stjórnarformaður. Einnig hefur hann verið hluthafi í minni fyrirtækjum, sérstaklega innan fatageirans.

Síðustu ár hefur Birgir verið í stjórn Skeljungs þar sem hann var hluthafi ásamt konu sinni, Eygló Björgu Kjartansdóttur. Nýverið seldu þau hjónin hlut sinn í Skeljungi. Helstu áhugamál Birgis eru ferðlög, laxveiði og skíði.

Nám og starfsferill Um Birgi

»» Viðskiptafræðingur frá Parsons School of Design

»» 1993 Stofnaði Domino’s á Íslandi

»» 1997 Stofnaði Domino’s í Danmörku

»» 2004 Fjárfesti í Magasin Du Nord

»» 2005 Fjárfesti í DAY by Birger & Mikkelsen

»» 2008 Fjárfesti í Skeljungi

»» 2010 Stofnaði Domino’s í Þýskalandi

»» 2011 Fjárfesti í Domino’s á Íslandi

Greinin birtist á fólksíðu Viðskiptablaðsins 28. júlí.