Byggingarframkvæmdir eru nú hafnar við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík. Samhliða þeim stendur yfir gríðarleg uppbygging á mannauði og starfsemi skólans. Ráðið verður í tugi nýrra akademískra starfa á næstu misserum og jafnframt mun alþjóðlegt ráðgjafaráð sem skipað er fræðimönnum og stjórnendum úr sjö erlendum háskólum starfa við hlið nýs háskólaráðs sem tekur til starfa í febrúar.

Einn best búni háskóli Evrópu að rísa í Reykjavík

Í tilkynningu vegna þessa segir að til að stuðla að uppbyggingu öflugs þekkingarsamfélags hér á landi eru nú hafnar framkvæmdir við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar. Byggingin verður ein sú stærsta í Reykjavík , um 40.000 fermetrar og er hönnuð með það að leiðarljósi að bjóða upp á aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir nemendur, kennara og vísindamenn. Skólinn verður einn best búni háskóli í Evrópu og mun nýja húsið gjörbylta aðstöðu til kennslu og vísindastarfa hér á landi. ÍSTAK er að hefja uppsteypu hússins að loknu útboði og fyrsta hluta byggingarinnar lýkur haustið 2009. Í ágúst á næsta ári hefst kennsla í húsinu í viðskiptafræði og tækni- og verkfræði. Byggingarframkvæmdum þessa áfanga mun svo ljúka á árinu 2010 og verður þá öll starfsemi Háskólans í Reykjavík sameinuð á einum stað.

Yfir 40 nýjar akademískar stöður

Samhliða nýbyggingu skólans stendur einnig yfir gríðarleg uppbygging á starfsemi hans. Ráðið verður í rúmlega 40 nýjar akademískar stöður á næstu misserum og koma starfsmenn skólans frá yfir 15 þjóðlöndum. Nú þegar hafa bæst við öflugan hóp HR-inga innlendir og erlendir sérfræðingar frá fjölmörgum háskólum um allan heim sem og starfsmenn frá fyrirtækjum á borð við Microsoft, NASA, og WHO (World Health Organisation). Alls starfa um 500 manns við skólann. Markmið HR er að vera alþjóðlegur háskóli í hópi framsæknustu skóla Evrópu. Þróunarsjóður HR sem stofnaður var í tengslum við hutafjáraukningu félagsins á síðasta ári mun styðja við þessa uppbyggingu. Skólinn er sem fyrr í meirihlutaeigu Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka Iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins en auk þeirra hefur Bakhjarlar HR ehf. bæst í hóp hluthafa, en það félag er í eigu Glitnis, Eimskips og Salt Investments.

Teymi frá MIT og London Business School móta framhaldsnám HR

Til að ná settum markmiðum hefur skólinn nú jafnframt aukið enn samstarf við öfluga erlenda háskóla. Hópur sérfræðinga frá MIT hefur að undanförnu unnið að þróun og skipulagningu meistaranáms í tækni- og verkfræði ásamt starfsmönnum skólans. Viðskiptadeild HR hefur jafnframt hafið undirbúning að samstarfi við London Business School um framtíðaruppbyggingu á framhaldsnámi í deildinni. Stefnt er að enn frekara samstarfi af þessum toga við leiðandi alþjóðlega háskóla á næstu misserum.

Alþjóðlegt ráðgjafaráð starfar með nýju háskólaráði HR

Í lok febrúar kemur til landsins nýtt ráðgjafaráð HR sem mun starfa með háskólaráði og stjórnendum skólans að mótun framtíðarstefnu og aðgerðaáætlana. Í ráðinu eru fræðimenn og stjórnendur frá sjö erlendum háskólum. Þetta eru: Eric Weber frá IESE á Spáni, sem er á meðal virtustu viðskiptaháskóla heims, Maria Fox frá Strathclyde í Skotlandi, Jonathan Gosling frá Exeter í Bretlandi, sem nýlega var útnefndur háskóli ársins þar í landi, Ole Medstad frá Oslóarháskóla, Justine Cassell frá Nothwestern háskólanum í Bandaríkjunum, John Allegrante frá Columbia University og John VanderSand frá MIT.

Ráðgjafarráðið starfar næstu 18 mánuði við hlið nýkjörins háskólaráðs. Í háskólaráði eru 8 fastafulltrúar og 2 varamenn sem að vanda eru skipaðir af eigendum skólans og eru fulltrúar íslensks atvinnulífs. Háskólaráð er skipað eitt ár í senn og í því eru nú Árni Harðarson lögfræðingur, Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Lárus Welding, forstjóri Glitnis, Róbert Wessman, forstjóri Actavis sem er formaður, Sigurður Bragi Guðmundsson verkfræðingur og Þórdís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Baugi Group. Varamenn eru Eggert Guðmundsson, forstjóri Granda og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Markviss uppbygging mannauðs HR og sterk tengsl við erlendar menntastofnanir og íslenskt atvinnulíf örvar rannsóknarvirkni  og nýsköpun í kennslu. Þessi uppbygging ásamt aðstöðu á heimsmælikvarða mun koma HR í fremstu röð háskóla í Evrópu og skapa Reykjavík sess sem alþjóðleg háskólaborg innan fárra ára samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.