Landsmönnum er jafnan umhugað um hróður lands og þjóðar á erlendri grundu og því er gaman að skoða hvernig forvitni umheimsins um landið hefur verið háttað. Að ofan má sjá hvernig hlutfallslegur áhugi miðað við leitir á Google hefur verið undanfarin fjögur ár.

Sem sjá má kemst þar ekkert í hálfkvisti við áhugann á Íslandi í kringum fótboltaævintýrið í Frakklandi á liðnu sumri. Gosið í Holuhrauni á þar ekki sjens, hvað þá uppljóstrun Panamaskjalanna og afsögn forsætisráðherra.

Til samanburðar má nefna að jafnvel gosið í Eyjafjallajökli náði ekki nema um þriðjungi athyglinnar, sem Ísland fékk á EM í sumar leið. Og bankahrunið? Það rétt slefaði yfir áhugann á Holuhrauni.