„Hrekkjavaka í Bandaríkjunum er ein af þessum mörgu skemmtilegu hátíðisdögum sem Bandaríkin hafa komið sér upp,” segir Hulda Þórisdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild HÍ.

Hulda bjó í Bandaríkjunum um árabil og þekkir því hrekkjavökuna eða Halloween vel. „Skemmtilegust er auðvitað sú staðreynd að fullorðið fólk fær fullt leyfi til að hræða líftóruna úr börnum þegar þau koma til að biðja um „gotterí eða grikk“. En án gríns þá er það líklega skemmtilegast, eins og sálfræðingar hafa sýnt með rannsóknum sínum, að það gerist eitthvað þegar fólk klæðir sig í búning og hættir að vera það sjálft. Fólk verður hömlulausara og leyfir sér allskyns hegðun sem það þyrði annars ekki að sýna. Væntanlega getur þetta brotist út í andfélagslegri hegðun en mín upplifun hefur fyrst og fremst verið að út brýst mikið stuð og fjör.”

Hulda upplifði hrekkjavökuna bæði barnlaus í New York og sem nokkuð ráðsett foreldri í Los Angeles: „Í New York klæddi ég mig upp í úthugsaða búninga og hélt út á lífið í West Village þar sem ávallt er haldin skrúðganga og mikil gleði ríkir langt fram á nótt. Ég var í doktorsnámi í sálfræði í New York og eitt árið klæddi ég mig í þemað „Freudian slip“ en það var undirkjóll sem ég hafði fest á alls kyns miða með freudískum hugtökum. Það er skemmst frá því að segja að þessi búningur gerði ekkert sérstaklega gott mót.”

Í Los Angeles var hátíðin öðruvísi en ekki síður skemmtileg að mati Huldu. „Strákurinn, þriggja ára, var búinn að föndra forláta hrekkjavökupoka í leikskólanum og á hrekkjavökunni sjálfri héldum við í hóp með nokkrum börnum og foreldrum af stað í húsin í hverfinu. Það var óborganlegt að sjá hvernig lítill spiderman uppgötvaði allt í einu út á hvað þetta gekk – að það mætti hlaupa upp að ókunnugum húsum, banka upp á og fá sælgæti! Börnin þreyttust þó auðvitað fljótt, og síðan var haldið heim í hús þar sem börnin átu sig ringluð af sælgæti og við fullorðna fólkið drukkum margarítas og borðuðum „enchiladas“.“