Hulda Sólrún Guðmundsdóttir var í gær endurkjörin í Evrópustjórn alþjóðahreyfingar skáta. Hulda er sálfræðingur og var fyrsti Íslendingurinn til að setjast í Evrópustjórnina þegar hún var fyrst kjörin fyrir þremur árum.

Einungis má bjóða sig fram til setu í tvö kjörtímabil. Hulda sat áður á árunum 2006 til 2014 í stjórn Bandalags íslenskra skáta áður en hún tók sæti í Evrópustjórn.

Skátar í Evrópu um 1,8 milljón

Áður hafa þrír Íslendingar setið í Evrópustjórn alþjóðasamtaka kvenskáta. Um 1,8 milljón skáta eru starfandi í 41 Evrópulandi.

Í fréttatilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta segir að kjör Huldu sé ekki bara staðfesting á framúrskarandi sjálfboðaliðastarfi hennar fyrir skáta í Evrópu heldur einnig viðurkenning á því gæðastarfi sem íslenskir skátar standa fyrir og aðrar Evrópuþjóðir líta til.