Rektor Listaháskóla Íslands hefur ráðið Huldu Stefánsdóttur, myndlistarmann, í stöðu prófessors í myndlist við myndlistardeild skólans. Fjórtán umsækjendur voru um starfið. Þriggja manna dómnefnd skipuð af stjórn skólans mat sex þeirra hæfa til að gegna starfinu miðað við starfssvið og skyldur  eins og starfið var auglýst af hendi skólans.

Hulda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1992. Hún lagði síðan stund á nám í frönsku við Háskóla Íslands í eitt ár áður en hún innritaðist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993. Lauk hún prófi úr málaradeild skólans 1997. Hulda fór 1998 til framhaldsnáms í New York  við The School of Visual Arts þaðan sem hún lauk meistaraprófi vorið 2000. Meðal kennara hennar þar voru þær Suzanne McClelland og Polly Apfelbaum. Að loknu framhaldsnámi starfaði Hulda sjálfstætt sem myndlistarmaður í New York allt til ársins 2005 þegar hún flutti til Íslands. Eftir heimkomuna hefur hún starfrækt eigin vinnustofu og jafnframt starfað sem stundakennari við Listaháskólann og fengist við ýmis störf á sviði félagsmála myndlistarmanna. Hulda starfaði sem blaðamaður á menningardeild Morgunblaðsins 1997 – 98, og hefur síðan skrifað fjölda greina fyrir blaðið um myndlist og tengd málefni.

Hulda hefur haldið einkasýningar á verkum sínum bæði á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Kanada. Síðustu einkasýningar hennar hér á landi voru sýningarnar Yfirlýstir staðir í Listasafni ASÍ 2005 og hlutlaust. á hreyfingu í Gallerí Ágúst 2007. Útgangspunktur verka hennar hefur verið rannsóknir á eigindum og eðli málverksins. Þar hefur hún sérstaklega skoðað tengsl málverka, ljósmynda og hreyfimynda og samband þeirra við rýmið í stærri innsetningum. Hulda hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og verk hennar hafa verið keypt af opinberum söfnum. Hulda var sýningarstjóri sýningarinnar Kvikar myndir , sem haldin var í Listasafni ASÍ í lok síðasta árs og hafði sem megintema gömlu höfnina í Reykjavík og starfsemina sem henni tengjast.

Hulda tekur við starfi prófessors þann 1. ágúst næstkomandi. Aðrir háskólakennarar í listsköpun við myndlistardeild næsta skólaár eru þau Anna Líndal, prófessor, Ólafur Sveinn Gíslason, prófessor, Katrín Sigurðardóttir, prófessor, auk deildarforseta Kristjáns Steingríms Jónssonar.