Nafni einkahlutafélagsins Veiðilækjar var nýverið breytt í Rhea og ný stjórn skipuð yfir félaginu. Veiðilækur hélt utan um byggingu sumarbústaðar Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, við bakka Norðurár í Borgarfirði.Húsið er 840 fermetrar. Í því er m.a. gert ráð fyrir fimm baðherbergjum, 50 fermetra vínkjallara og tvöföldum bílskúr. Þá er gert ráð fyrir  gufubaði í kjallaranum.

Fram kemur í ársreikningi Veiðilækjar fyrir árið 2008 að félagið hafi selt fasteignir fyrir 207 milljónir króna. Hvorki er tekið fram um hvaða fasteign er að ræða né hver keypti. Þorkell Guðjónsson, framkvæmdastjóri Rhea, segir Sigurð ekki hafa átt Veiðilæk um þónokkurt skeið. Þorkell er jafnframt framkvæmdastjóri bókhaldsstofunnar Virtus. Varamaður í stjórn er Kristján Valur Gíslason, samstarfsmaður Þorkels hjá Virtus. Þorkell vildi ekki veita nánari upplýsingar um félagið og sagðist bundinn trúnaði við eigendur þess.