Hún tekur bara punkta frá Bjarna Benediktssyni sem er bara fínt ef þú ert í Sjálfstæðisflokknum en hún hefur enga sjálfstæða skoðun á efnahagsmálum og fjármálum,“ segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Ummælin lét hún falla í umræðum um hvort Vinstri græn og framsóknarflokkurinn hafi afsalað sér völdum til Sjálfstæðisflokksins í gegnum fjármála- og efnahagsráðuneytið. Kristrún segir fjármálaráðuneytið að mörgu leyti stærra en forsætisráðuneytið því þar sé fjármunum ríkissjóðs ráðstafað.

„Ég ætla ekki að gera lítið úr embættinu sem Katrín situr í. Það er auðvitað þannig að ef þú ert með forsætisráðherra í vinstri flokki og svo ertu með fjármálaráðherra í hægri flokki – þú lest bara út úr fjármálaáætlun mjög skýra hægri pólitík, það er bara þannig.“

Kristrún, sem situr í fjárlaganefnd, bendir á að áætluð útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu undir lok kjörtímabilsins verði þau lægstu á þessari öld. Hún segir marga vera mjög ánægða með þá niðurstöðu en spyr hvort sú staða endurspegli félagshyggjupólitík Katrínar.

„Þú ert með einstakling sem er ekkert að beita sér fyrir félagshyggjuforsendum í efnahagsmálum,“ segir Kristrún. „Það er ekkert sem bendir til þess að hún sé að hafa neina skoðun á því hvernig ríkissjóður er rekinn miðað við pólitíkina sem endurspeglast þarna. Mér finnst það ákveðin uppgjöf.“

Kristrún segir að þátttaka Vinstri grænna í ríkisstjórn í nærri fimm ár ásamt því að fjármálaáætlun til ársins 2027 liggi fyrir gefi tilefni fyrir framangreinda gagnrýni.

„Það er ekki verið að fjármagna stóra málaflokka. Ég get ekki ímyndað mér að það sé eins og hún myndi vilja sjá þetta ef hún hefði einhverja skoðun á þessu sjálf.“

„Hann ræður“

Sem dæmi um meint áhrif fjármálaráðuneytisins bendir Kristrún á Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra. Hann hafi ítrekað sagst ætla að beita sér fyrir því að stóraukið fjármagn yrði lagt í uppbyggingu húsnæðis. Þegar uppi var staðið hafi þessi málaflokkur verið skorinn niður um tvo milljarða króna á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

„Þetta er bara fáránlegt, Bjarni hefur bara sagt nei. Það hefur eitthvað gerst þarna í millitíðinni því þremur vikum áður þá segir [innviða]ráðherrann bókstaflega í pontu að ‚ég er búinn að mæla með að það verði sett meira fjármagn í þennan lið‘ og það kemur ekki.“

Kristrún segir að sama staða sé uppi á teningnum hjá mörgum öðrum málaflokkum á borði framsóknarflokksins og vinstri grænna – það vanti fjármögnun. „Stór hluti af stjórnarsáttmálanum er vanfjármagnaður nema ef þau ætla í niðurskurð á móti.“

„Það er rosalega margt í kerfinu okkar sem tók á sig högg eftir hrun; heilbrigðiskerfið og innviðir. [...] Á einhverjum tímapunkti kemur líka að skuldadögum í þessu og það þarf að eiga sér stað einhver leiðrétting. Mér finnst það ekki endurspeglast í fjármálaáætlun,“ segir Kristrún.

„Að því leytinu til segi ég bara: Hann ræður - Bjarni ræður rosalega miklu.“

Skortur á fagmennsku á Íslandi

Að venju var farið yfir víðan völl í hlaðvarpinu, sem Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson stýra. Kristrún ræddi meðal annars um bankasöluna, vaxandi verðbólgu, gagnrýni hennar á Seðlabankann og Ásgeir Jónsson vegna vaxtalækkana eftir að  Covid-faraldurinn hófst og umfjöllun um áskriftarréttindi hennar í Kviku banka í aðdraganda þingkosninga í haust.

Undir lok þáttarins var hún spurð hvort það væri meiri fagmennska í bankageiranum eða á Alþingi.

„Þetta er erfið spurning, því bankageirinn á Íslandi og bankageirinn í Bandaríkjunum eða á Bretlandi er ekki það sama,“ segir Kristrún sem vann um tíma hjá Morgan Stanley, bæði í New York og London. Hún gengdi einnig stöðu aðalhagfræðings Kviku banka á árunum 2018-2021 ásamt því að hafa unnið í greiningardeild Arion banka fyrir rúmum áratugi síðan.

„Ég á ekki að vera tala þetta niður en mér finnst svolítill skortur á fagmannleika á Íslandi. Fólk bara mætir óundirbúið á fundi, er á löngum fundum. Er rosa mikið að spjalla. Þetta er rosa mikill kúltúr að undirbúa sig ekki.“

Í þessu samhengi segir Kristrún Alþingi vera skrýtinn vinnustað að því leyti að þingmenn beri rosalega mikla ábyrgð á sjálfum sér.

„Ég myndi segja að þú getir verið með ákveðinn fagmannleika á Alþingi umfram það sem var í bankakerfinu að því leytinu til að þú stýrir þér rosalega mikið sjálfur. Þú getur verið eins fagleg og þú vilt vera.“

Kristrún ræðir völd fjármálaráðuneytisins og „uppgjöf“ Katrínar Jakobsdóttur frá 38:07-45:30.