Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur að beiðni Hundaræktarfélags Íslands bannað Hundaræktunarfélaginu Íshundar að nota bæði skammstöfunina HRFÍ og H.R.F.Í.

Íshundar fengu vörumerkið H.R.F.Í. skráð sem orðmerki hjá Einkaleyfisstofu í október síðastliðnum og hafði Hundaræktarfélag Íslands tveggja mánaða andmælarétt. Í gerðabók sýslumanns segir að Hundaræktarfélagi Íslands hafi ekki verið kunnugt um skráninguna fyrr en í byrjun janúar, um hálfum mánuði eftir að andmælarétturinn rann út.

Hins vegar telur Hundaræktarfélag Íslands sig hafa lögvarinn rétt á vörumerkinu H.R.F.Í. þar sem félagið hafi notað vörumerkið allt frá árinu 1969. Þá telur félagið sig hafa skapað sérstöðu, virðingu og gott orðspor undir því merki. Félagið hefur notað skammstöfunina á fatnað, haldið sýningar undir merkinu auk þess að taka þátt í erlendum viðburðum undir merkinu. Þess utan er slóðin á heimasíðu félagsins hrfi.is

Þá kemur einnig fram að Hundaræktarfélag Íslands telji notkun merkisins á öðrum vettvangi skapa ruglingshættu „og hafa í för með sér óbætanlegt tjón fyrir félagið sem lagt hafi í mikinn kostnað við að skapa sér sérstöðu undir skammstöfuninni H.R.F.Í.“

Sýslumaður féllst sem fyrr segir á kröfu Hundaræktarfélags Íslands og setti lögbann á notkun Hundaræktunarfélagsins Íshundar á vörumerkinu H.R.F.Í.