*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 7. mars 2021 19:27

Hundeltur um alla Evrópu

Afar erfiðlega gekk að birta Magnúsi Garðarssyni stefnu í fjárnámsmáli Arion banka gegn honum.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ein röksemda Ingvars Smára Birgissonar, lögmanns Magnúsar Garðarssonar í máli Arion banka gegn honum, fyri sýknu var að bankinn hefði „sýnt af sér stórkostlegt tómlæti við innheimtu skuldarinnar“. Hún hefði gjaldfallið í september 2017, tilkynning um vanskil hafi verið send í nóvember það ár og innheimtubréf í byrjun árs 2018.

„Frá gjaldfellingu skuldarinnar og til þingfestingar máls þessa liðu rúmlega tvö og hálft ár. Stefnandi er fjármálafyrirtæki og því verður að gera ríkar kröfur til hans. Það gengur ekki að ábyrgðarmenn skulda þurfi að sætta sig við að bíða í hartnær hálfan áratug eftir að mál þeirra séu leidd til lykta,“ sagði lögmaðurinn. Í því samhengi vísaði hann til dóms Hæstaréttar frá árinu 2014 þar sem skuldari var sýknaður af kröfu um greiðslu þar sem kröfuhafi hafði ekki sinnt innheimtu um þriggja ára skeið.

„Það er vissulega ögn lengra tímabil en í þessu máli en svipuð sjónarmið eiga við. Umbjóðandi minn mátti réttilega halda að bankinn hefði fallið frá veðinu eða hefði hætt tilraunum til að fullnusta skuldina hjá TDÍ. Hvað sem líður tilraunum til stefnubirtinga erlendis þá skiluðu þær sér ekki til hans og honum var ekki kunnugt um þær. Af þeim sökum ættu krafan og ábyrgðin að teljast niður fallin,“ sagði Birgisson. Þess má til gamans geta að hann varð fyrir örstuttri truflun í miðri ræðu sinni þegar jarðskjálfti reið yfir með þeim afleiðingum að dómari málsins hljóðaði eilítið.

„Í byrjun árs 2018 var reynt að birta stefnu hér heima án árangurs. Bankinn leitaði því til sýslumannsins á Suðurnesjum en sá hefur samskipti við önnur lönd vegna stefnubirtinga á erlendri grund. Það var tvívegis reynt að birta stefnu í Danmörku en þá fékkst veður af því að hann væri fluttur til Spánar. Því var reynt að stefna á Spáni. Ekkert af þessu tókst og var stefnan því auglýst í Lögbirtingablaðinu,“ sagði Ingvar Ásmundsson, lögmaður bankans, í málflutningsræðu sinni. Það þarf vart að taka það fram að Magnús var ekki mættur í dómsal og gaf því ekki aðilaskýrslu.

„Það verður að segjast að málflutningur um heimili fjölskyldunnar er með ákveðnum ólíkindum. Það er óútskýrt hvar stefndi býr. Það var reynt að birta honum stefnu þar og hann fannst ekki svo varla býr hann þar. Hvað röksemdir um tómlæti varðar þá verður ekki horft framhjá því að það er búið að hundelta hann um alla Evrópu með það að marki að stefna honum. Það að við erum stödd hér, á þessum tímapunkti, stjórnast af aðgerðum stefnda sjálfs,“ sagði Ásmundsson í síðari ræðu sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.