„Það er því miður ekki meiri pening að sækja til ríkisins. Það er hundleiðinlegt að segja þetta,“ segir Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra. Hún var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem fjallað var um kjaradeilur innan Landspítalans og lagði þar áherslu á að ríkið gæti ekki lagt meira til spítalans vegna kjaradeilna þar án þess að leggja út í meiri háttar lántökur.

Katrín sagði m.a. það vera stefnu ríkisstjórnarinnar að leiðrétta laun kynjanna. Heilbrigðisstéttir væru mikil kvennastétt og á þær hallaði. Á móti sé staða ríkissjóðs slík nú að hann hafi ekki burði til að gera meira en þegar hafi verið gert.

Þá benti Katrín á að niðurskurður á Landspítalanum hafi numið fimm milljörðum króna á síðastliðnum fjórum árum. Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, telur niðurskurðinn talsvert meiri eða níu milljarða króna.