Segolene Royal, forsetaframbjóðandi sósíalista, kynnti á sunnudag stefnumál sín fyrir kosningarnar sem fara fram 22. apríl og 6. maí næstkomandi. Royal hefur verið sökuð af andstæðingum sínum um að leggja meiri áherslu á umbúðir frekar en innihald í baráttu sinni. Hún svaraði þessari gagnrýni á sígildan franskan máta: Hún lagði fram hundrað hugmyndir um hvernig megi verja velferðarkerfi landsins gegn ógnum eins og alþjóðavæðingu og efnahagsstefnu keppinautar hennar - Nicolas Sarkozy, frambjóðanda hægri manna. Royal hyggst skapa fimm hundruð þúsund ný störf fyrir ungt fólk og heitir að auka framlög til velferðarmála gríðarlega. Í tveggja klukkustunda langri ræðu sinni á fundi með stuðningsmönnum sínum útskýrði hún hinsvegar ekki hvernig að ríkissjóður myndi mæta aukningu útgjalda kæmist hún til valda.

Tillögum Royal er ætlað að saxa á það forskot sem Sarkozy hefur haft í skoðanakönnunum undanfarið, en mörgum hefur hún þótt draga á langinn að setja fram stefnu sína í mikilvægum málaflokkum. Stjórnmálaskýrendur segja að þeim sé ætlað að höfða til vinstri sinnaðra kjósenda og til þeirra sem eru staddir á miðjunni. Hún leggur áherslu á hefðbundin mál sem eru líkleg til þess að falla í kramið hjá vinstrimönnum, eins og hækkun lágmarkslauna og að auka völd verkalýðsfélaga. Hún vill einnig að þau arðbæru fyrirtæki sem flytja starfsemi sína til annarra ríkja eða segja upp fólki verði sektuð, og auk þessa boðar hún að ríkisvaldið ákvarði þjónustugjöld banka. Royal leggur ennfremur mikla áherslu á að höfða til ungs fólks en hún vill að því verði veitt vaxtalaus lán til þess að koma á laggirnar fyrirtækjum og til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Ásamt þessu boðar hún aukningu útgjalda til menntamála og rannsókna.

Í alþjóðamálum leggur hún áherslu á að Frakkar standi vörð um gildi byltingarinnar og hyggst hún beita sér fyrir umbótum á stofnunum alþjóðahagkerfisins og leggur áherslu á nauðsyn þess að Frakkar standi uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum. Athygli vekur að Royal vill að Seðlabanki Evrópu breyti um peningamálastefnu og leggi áherslu á vöxt og atvinnustig í stað núverandi verðbólgumarkmiða.

Skoðanakannanir benda til að val franska kjósenda muni standa á milli Royal og Sarkozy eins og búist var við í upphafi. Valkostirnir gætu vart verið skýrari. Á meðan Royal boðar stefnu sem sver sig í ætt við hefðbundnar áherslur vinstrimanna þar í landi stendur Sarkozy fyrir efnahagsstefnu sem er skyld stefnu hægrimanna í Bandaríkjunum og Bretlandi. Royal segir að kosningarnar snúist meðal annars um að verja "hina frönsku þjóðfélagsgerð" á tímum alþjóðavæðingar. Sarkozy er hinsvegar boðberi breytingar á þeirri þjóðfélagsgerð. Tíðindum þótti sæta þegar hann lýsti því yfir í viðtali við Le Monde að Frakkar hefðu verið afvegaleiddir af loforðum ráðamanna og óraunhæfum stefnumálum í þrjátíu ár. Hann leggur áherslu á umbætur á skattakerfi landsins og boðar skattalækkanir og aðhaldsemi komist hann til valda. Sarkozy hefur einnig fært rök fyrir því að Frakkar séu skattlagðir um of, lög og reglugerðir ríkisvaldsins séu bæði íþyngjandi og komi í veg fyrir eðlilega nýsköpun í atvinnulífinu, sem geri það að verkum að hagkerfið sé illa í stakk búið til að mæta þeim áskorunum sem fylgi alþjóðavæðingunni.

Hvað sem verður um "franska þjóðfélagsgerð" í framtíðinni er ljóst að töluverður efnahagsvandi bíður úrlausnar næsta forseta Frakklands. Hagvöxtur hefur verið lítill undanfarin ár og gera spár ráð fyrir að hann verði aðeins 1.7% á þessu ári sem er með því minnsta á evrusvæðinu. Atvinnuleysi er með mesta móti og er sérstaklega hátt meðal ungmenna en ríflega fimmtungur þeirra er án atvinnu. Á sama tíma hafa skuldir hins opinbera aukist mikið undanfarin er og nema þær nú um 66% af þjóðarframleiðslu.