Sólarorkuframleiðandinn Silicon Ranch hefur tryggt sér 775 milljóna dollara fjármögnun í formi hlutafjár, eða um hundrað milljarða króna. Félagið er í 45% eigu olílufyrirtækisins Shell. Nýja hlutaféð kemur bæði frá nýjum og núverandi fjárfestum félagsins, að því er kemur fram í grein Reuters . Félagið tryggði sér 225 milljóna dala fjármögnun í formi hlutafjár í síðasta mánuði og hefur því tryggt sér samtals milljarð dollara á síðustu vikum, eða um 130 milljarða króna.

Nýja fjármagnið verður nýtt í að auka framleiðslu félagsins á sólarorku sem nemur tveimur gígavöttum (2 GW). Til samanburðar er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar 690 MW og jafngildir aukningin því þremur Kárahnjúkavirkjunum.

Silicon Ranch er með höfuðstöðvar sínar í Nashville í Tennessee fylki, en félagið framleiðir sólarorku með sólarsellum á meira en 150 mismunandi stöðum í 15 mismunandi fylkjum Bandaríkjanna. Meðal helstu viðskiptavina félagsins er samfélagsmiðillinn Facebook.

Sólarorka 45% allrar orku árið 2050

Gríðarlegur uppgangur er á endurnýjanlegum orkugjöfum vestanhafs, sér í lagi sólarorku, en þessi mikli vöxtur í greininni hefur aukið eftirspurn fjárfesta eftir svokölluðum grænum eignum. Þess má geta að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur lýst því yfir að Bandaríkin stefni á að sólarorka sjái landsmönnum fyrir 45% allrar orku árið 2050 en hlutfallið var einungis 3% árið 2020, að því er kemur fram í skýrslu orkumálaráðuneytis Bandaríkjanna.