Í gær var greint frá því að á fyrsta fjórðungi ársins hefðu 97 milljarðar evra flúið spænska hagkerfið, en þetta jafngildir um einum tíunda hluta af vergri landsframleiðslu Spánar. Þessar tölur renna stoðum undir vangaveltur hagfræðinga um að erlendir fjármagnseigendur væru að selja spænskar eignir á meðan spænskir bankar væru að nota lánsfé frá evrópska seðlabankanum til að kaupa spænsk ríkisskuldabréf.

Í frétt Financial Times er haft eftir Raj Badiani, hagfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu IHS Global Insight, að hann óttist að tölurnar frá síðustu mánuðum, þ.e. á öðrum ársfjórðungi, séu jafnvel enn svartari og að þá hafi enn meira fé yfirgefið landið.

Spænsk stjórnvöld þurftu einnig að sitja undir reiðilestri Mario Draghi, seðlabankastjóra Evrópu, en hann las þeim pistilinn fyrir að hafa ítrekað vanmetið kostnaðinn við að bjarga Bankia, þriðja stærsta viðskiptabanka landsins.