Merkja má aukinn áhuga ungs fólks, sem og dreifðari aldurshóps almennings, á að fara um fjöll og fyrnindi þetta sumarið, enda samfélagsmiðlar uppfullir af myndum af fólki að taka upp heilbrigðan lífsstíl.

„Ég get staðfest það. Viðskiptavinahópurinn sem við höfum verið að sjá hefur lengi verið 50 plús og svo yngra fólkið oft áður en það er komið með börn og svo hefur verið smá gat þarna milli þrítugs og fimmtugs, en núna eru að koma breiðari aldurshópar inn,“ segir Ásmundur Þórðarson markaðsstjóri í Fjallakofanum.

„Má sjá vinsældir þess í verkefnum á vegum Ferðafélags Íslands, sem eru með Landvættina sem felur í sér ákveðnar áskoranir sem þarf að klára á hverjum landshluta og Ferðafélags barnanna, þar sem foreldrarnir eru að taka börnin með í gönguferðir. Einnig má nefna Laugarvegshlaupið, en um síðustu helgi tóku yfir 500 manns þátt í því, og svo er Vesturgatan, sem ég er að fara í sjálfur komandi helgi, alltaf af stækka, þar sem keppt er í hjólum, hlaupum og sundi á Vestfjörðum.“

Í nýlegri umfjöllun breska blaðsins Guardian var sagt frá því hvernig samfélagsmiðlar og leitin að góðri mynd fyrir þá væri að ýta undir þessa aukna útivist og tekur Ásmundur í sama streng.

„Útivist og sport eru farin að tvinnast miklu meira saman. Þetta er ekki lengur bara fólkið í felli- eða hjólhýsinu að elta góða veðrið heldur er útivistin stunduð meira sem líkamsrækt. Fólk er þó líklega enn með kort í líkamsræktinni, en þegar það er sumar og gott veður er í auknum mæli verið að nýta það að vera í góðu formi, í stað þess eingöngu til að líta vel út,“ segir Ásmundur.

„Þessu tilheyra svo oft kaup á ýmis konar búnaði og hefur salan hjá okkur gengið mjög vel í sumar. Má þar nefna tjöldin, en við erum með lítið af hefðbundnum fjölskyldutjöldum sem fólk kaupir því það ætlar í útilegu um helgina, heldur eru okkar tjöld oft meiri fjárfesting fyrir fólk sem ætlar í alvöru fjallamennsku. Síðan erum við með Scarpa gönguskóna, sem hafa verið að seljast mjög vel, en þeir eru með línuna alveg frá fjallahlaupaskóm alveg upp í jöklaskó, og sjáum við að fólk er að endurnýja gömlu leðurskóna til að vera með léttari skó. Síðasta eina og hálfa mánuðinn hefur síðan sprungið út hjá okkur sala á rafmagnshjólum sem hægt er að nota í fjallamennsku, til að styðja við á leiðinni upp.“

Einnig nefnir Ásmundur mikla aukningu í fjallahjóla og -skíðamennskunni síðustu árin, en í fyrra tilvikinu er það oft þeir sem tóku upp götuhjólatískuna sem gengið hefur yfir landið síðustu ár að bæta við sig að hjóla í villtri náttúrunni.

„Það er búið að stækka mikið síðustu fimm ár, og enn meira að springa út núna í sumar. Ég var til dæmis í Skálafellinu í síðustu viku, þar sem stólalyftan er nú opin á þriðjudögum og fimmtudögum svo fólk geti farið upp og brunað niður á hjólunum sínum, og okkur reiknaðist til að þarna væru nálægt hundrað milljónir króna verðmæti í hjólum. Þetta er eins og um miðjan vetur, röð í lyfturnar og brjálað stuð. Þessu sporti fylgir mikill útbúnaður, það þarf fulldempuð fjallahjól, hlífar og hjálmar og allar græjur,“ segir Ásmundur.

„Síðan erum við að selja fjallaskíði allt sumarið enda getum við hér á landi fundið fólk sem fer á fjallaskíði allt árið um kring, eins og í Kerlingafjöllum, á jöklunum og svo er sérstaklega vinsælt að labba á þeim á Hvannadalshnjúk, festa svo niður hælinn og skíða niður.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um afkomu og þróun hlutabréfaverðs Össurar
  • Deilur fyrirtækja á fjarskiptamarkaði halda áfram með kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins
  • Hlutabréfavelta í kauphöllinni í ár skoðuð og borin saman við fyrri ár.
  • Rætt er við nýjan bæjarstjóra á Akureyri um stöðu atvinnulífs við Eyjafjörð.
  • Farið er yfir brösulegan rekstur kísilvers PCC á Bakka við Húsavík á fyrsta starfsárinu
  • Úttekt á áætlunum Facebook til að bylta fjármálaheiminum með útgáfu rafmyntarinnar Libra
  • Stærstu tónleikar Íslandssögunnar eru skoðaðir fyrr og nú og í náinni framtíð
  • Aukin framþróun í sjálfvirkni fer inn á nýjar og áður óþekktar brautir í tryggingageiranum
  • Nýr yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, Helgi Jóhannesson, er tekinn tali um ferilinn og útivistarbakteríuna
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um forseta Bandaríkjanna