Kostnaður Landspítalans vegna leigubíla fyrir starfsmenn nam 94,9 milljónum króna í fyrra. Þar áður var hann 90,9 milljónir og árið 2014 nam hann 108,4 milljónum. Þessu er gerð skil í Fréttablaðinu .

Aðallega er skipt við Hreyfil en spítalinn er með samning um viðskiptakort milli fyrirtækisins og Landspítala. Einnig skiptir Landspítalinn þó við A-stöðina, Bifreiðastöð Oddeyrar og BSR. Ef tekið er með í reikninginn kostnað við bílaleigubíla nam heildarkostnaðurinn 100,8 milljónir í fyrra, 95,6 milljónir árið 2015 og 111,8 milljónir 2014.

Víðtæk starfsemi

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landspítalanum, segir í viðtali við Fréttablaðið að kostnaðurinn skýrist aðallega af því hve víða starfsemi Landspítalans fer fram. Hún bendir á að Landspítalinn sé með sína starfsemi á sautján stöðum í meira en 100 byggingum.

María tekur einnig fram að Landspítalinn eigi sjálfur nokkra bíla, sem eru meðal annars notaðir til að aka starfsfólki milli Fossavogs og Hringbrautar á fimmtán mínútna fresti, eru þær ferðir vel nýttar að sögn Maríu.