Tæplega hundrað notendaauðkenni viðskiptavina NOVA koma fyrir í njósnaskjölum breskra og bandarískra njósnara, þegar þeir gerðu tilraunir árin 2010 og 2011 til að kanna hvaða aðferðir væru farsælastar til njósna á almenningi. Viðskiptavinir NOVA voru berskjaldaðir fyrir njósnum vegna öryggisgalla í sim-kortum frá Gemalto, stærsta framleiðanda sim-korta í heiminum.

Njósnastofnanir í Bretlandi og Bandaríkjunum höfðu stolið kóðum sem gerðu þeim kleift að skoða innihald fjarskipta í símum sem voru með slíkum sim-kortum, að því er segir á frétt Daily-Mail.

"Þetta hefur sýnt að sjálfvirk endurheimt auðkennislykla getur á skilvirkan hátt auðkennt einstaka notendur og samsvarandi auðkennislykla þeirra," segir í njósnaskýrslu sem Daily Mail vitnar til. Í grafi sem er í skjalinu má sjá að þann 11. febrúar 2010 hafi tekist að auðkenna tæplega 100 viðskiptavini NOVA og njósnirnar hafi staðið yfir á milli 28. janúar og 25. febrúar það sama ár. Ekki kemur fram hvort upplýsingar um notendaauðkenni hafi verið notaðar til frekari upplýsingaöflunar um notendur.

Önnur íslensk fjarskiptafyrirtæki eru ekki nefnd.

Á fréttavef mbl.is segir að Liv Bergþórsdóttir, forstjóri NOVA, hafi ekki kannast við málið þegar miðillinn spurðist fyrir um málið.