Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið App Dynamic hefur gert samning við danska tæknifyrirtækið Airtame um að hið síðarnefnda noti svokallaða AirServer tækni hins fyrrnefnda í vélbúnaði sínum.

Airtame selur lítið tæki sem tengt er við skjá og gerir notendum kleift að senda myndefni þráðlaust frá tölvum og snjalltækjum. App Dynamic selur sambærilegt tæki, en öflugra, stærra og ögn dýrara. Fyrirtækin tvö eru því í raun keppinautar, en á meðan vara Airtame hefur náð meiri útbreiðslu, stendur AirServer tæknin mun framar. Þau hafa því ákveðið að slá höndum saman.

Pratik Kumar, framkvæmdastjóri App Dynamic, segist búast við að tekjur fyrirtækisins, sem þegar hlaupa á hundruðum milljóna, tvöfaldist vegna samningsins, sem felur í sér að Airtame greiðir App Dynamic fyrir hvert virkjað tæki.