Ljóst er að gríðarlegt tjón hefur orðið í álveri Alcan í Straumsvík eftir að rafmagn fór af kerskála 3, eða um þriðjungi kera í álbræðslunni, sagði Hrannar Pétursson, talsmaður Alcan, í samtali við Viðskiptablaðið.

"Ástæða þessarar miklu truflunar er alvarleg bilun í rafbúnaði, sem olli níu klukkustunda straumleysi í skálanum á mánudag. Straumleysið má rekja til bilunar í spennum í aðveitustöð en ekki er ljóst hvað olli þeirri bilun," segir í tilkynningu frá Alcan.

Hrannar sagðist ekki tilbúinn að tjá sig nákvæmlega um hversu tjónið geti reynst mikið en ljóst sé að það hlaupi að minnsta kosti á mörg hundruð milljónum króna. Nýlega var búið að auka rafstrauminn í skálanum til að auka framleiðsluna, en lán í óláni er að engin slys urðu á fólki við óhappið.

Hrannar sagði að um 40% af framleiðslunni liggi nú niðri, en í verinu eru framleidd um 180 þúsund tonn af áli á ári, eða um 15 þúsund tonn á mánuði. Framleiðslugetan hefur því minnkað um nálægt 6.000 tonnum á mánuði.

Ljóst er að viðgerð á kerum í kerskála með rafbúnaði og öllu sem því fylgir tekur í það minnsta margar vikur og jafnvel mánuði. Hver vika í stoppi telur því stórar upphæðir í framleiðslutapi.