*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 25. maí 2020 07:09

Hundruð báta til Bandaríkjanna

Bátasmiðja Össurar Kristinssonar, Rafnar, skoðar að klippa skrokka af notuðum bátum og setja ÖK Hull skrokkinn undir.

Höskuldur Marselíusarson
Haukur Alferðsson er framkvæmdastjóri bátasmiðjunnar Rafnar en Þorsteinn Sigurbjörnsson er sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins.
Gígja Einarsdóttir

Haukur Alfreðsson framkvæmdastjóri bátasmiðjunnar Rafnar og Þorsteinn Sigurbjörnsson sölu- og markaðsstjóri hjá Rafnar eru ánægðir með að nú hyggjast stjórnvöld hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunarkostnað úr 20% í 35% sem lið í viðbrögðum vegna áhrifa heimsfaraldursins á hagkerfið, þótt þeim þyki miður að það taki ekki gildi fyrr en á næsta ári.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur félagið farið í gegnum viðamikla fjárhagslega endurskipulagningu á síðustu árum, en nú stefnir félagið í sókn og hraðan vöxt með neti samstarfsaðila þar sem einblínt er á sölu og markaðsstarf og kynningu á einstöku bátalagi Rafnar. Bátalagið ber vörumerkið ÖK Hull en það er byggt á hönnun Össurar Kristinssonar eigenda og stofnanda Rafnar sem jafnframt stofnaði stoðtækjafyrirtækið sem heitir eftir honum.

Minnast þeir Haukur og Þorsteinn á mikilvægi þess að halda þekkingu á skipasmíðum við og til staðar í landinu svo ekki þurfi að leita erlendis fyrir þjónustu og viðgerðarþjónustu. Sem dæmi um það nefna þeir að það þurfi ekki að leita langt aftur í tímann þegar skipasmíðastarfsemi var víða um land, bátar í smíðum til að mynda við Reykjavíkurhöfn sem og vísa í skipasmíðastöð langafa blaðamanns á Ísafirði.

„Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir stjórnvöld að halda í sem mestan iðnað og þjónustu í landinu, sérstaklega núna. Við erum ekkert endilega dýrari hér á landi en víða erlendis, jú kannski er vinnulaunakostnaðurinn aðeins hærri, en við náum honum niður með meira hagræði, meiri framleiðni og meiri afköstum," segir Haukur.

„Næsta skref hjá okkur er að stækka sölukerfið okkar byggt á hugmyndafræðinni á bakvið Rafnar Maritime, og þá selja fleiri leyfi og fá fleiri sölumenn og samstarfsaðila. Rafnar verður áfram miðstöð vöruþróunar og þjónustu, og með framleiðslu fyrir nærmarkaðinn.

Loks erum við að fara inn á nýtt svið, sem er að setja skrokkinn okkar undir notaða báta, en til dæmis hjá bandaríska hernum eru í notkun bátar sem eru mjög slæmir í sjó, og eru að fara illa með mennina um borð. Við erum því með til skoðunar í samstarfi við þjónustufyrirtæki aðgerðaraðila vestanhafs að klippa botnana undan einhverjum hundruðum báta og setja okkar skrokk undir. Hvort þetta gangi eftir kemur í ljós, með bjartsýni, á næstu tveimur mánuðum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.