Veðurblíðan á Norðurlandi hefur orðið til þess að ekkert lát er á vinsældum hvalaskoðunarferða á Húsavík. Þar eru núna rekin þrjú fyrirtæki og stóru fyrirtækin tvö, Norðursigling og Gentle Giants, taka á móti hundruðum ferðamanna á hverjum degi.

Steinunn Sigvaldadóttir, framkvæmdastjóri Norðursiglingar, segir að ferðamönnum hjá fyrirtækinu hafi fjölgað um 20% í júní frá fyrra ári en um fimm til sjö prósent í júlí. „Þetta hefur gengið mjög vel, það er búið að leika við okkur veðrið og júní var rosalega flottur. Það var mikil aukning í ferðamönnum,“ segir Steinunn.

Steinunn segir að Norðursigling sé að fá á bilinu 400 og upp í 700 á dag. Fyrirtækið sé með sjö báta, þar af þrjár skútur.  „Það er mest aukning í skútunum en það er þar sem við erum að aðgreina okkur frá hinum,“ segir hún. Dagsferðir, þar sem bæði hvalir og lundi er skoðaður, séu mjög vinsælar núna. Þar sé mesta aukningin. Auk þess að reka hvalbátana rekur Norðursigling einnig veitingastaðinn Gamla Bauk, sem er einn af vinsælustu veitingastöðunum á Húsavík.

Stefán Guðmundsson er framkvæmdastjóri Gentle Giants, sem er annað stærsta fyrirtækið á Húsavík. Þetta er tólfta árið sem Gentle Giants er rekið en fjölskylda Stefáns er búin að vera viðloðandi hvalaskoðunarferðir frá árinu 1982. „Þá held ég að við höfum nú verið með þeim fyrstu sem fóru að sigla með ferðamenn út á Skjálfandaflóa,“ segir hann. Hann segir að viðskiptavinir fyrirtækisins geti farið upp í nokkur hundruð á dag, en það sé misjafnt eftir dögum. „Við erum í meiru heldur en bara hvalaskoðun, við erum að fara í allskonar uppákomur, afmæli, brúðkaup, ljósmynda- og kvikmyndaverkefni,“ segir hann og nefnir fleiri atriði.

Þriðja fyrirtækið hóf svo rekstur í vor, en þar er Börkur Emilsson í forsvari. „Við byrjuðum fyrsta júní og það fór rólega af stað. En það er góður stígandi í þessu,“ segir Börkur í samtali við VB.is. Júlí hafi verið eftir væntingum en júní hafi verið heldur minni en reiknað var með.  „En það hefur gengið mjög vel. Við höfum séð hval í hverri einustu ferð og fengið góða umfjöllun,“ segir Börkur og nefnir þar vefsíðuna Trip Advisor sem dæmi.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í janúar síðastliðnum kom fram að farþegar hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík í fyrra voru 174 þúsund og að tekjur vegna þeirra hafi numið um 1,5 milljörðum króna. Háannatíminn er ekki á enda og því má búast við því að tekjurnar verði síst minni á ár.