Skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða hækka um hundruð milljarða verði ný aðferðafræði við útreikning á lífslíkum, sem Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) hefur lagt til, staðfest af fjármálaráðuneytinu.

Breytingin hefur ólík áhrif á einstaka lífeyrissjóði en áhrifin eru mest þar sem meðalaldur sjóðfélaga er lægstur. FÍT leggur til að brugðist verði við með því að hækka lífeyrisaldurinn en án mótvægisaðgerða verða lífeyrisgreiðslur lægri enda þarf að greiða út lífeyri í lengri tíma þar sem raunin er sú að lífslíkur fara hækkandi.

Ný ríkisstjórn boðar í stjórnarsáttmálanum gerð grænbókar um lífeyriskerfið þar sem meðal annars á að skoða hvernig lífeyriskerfið geti brugðist við bættum lífslíkum.

Rangar væntingar til yngra fólks

Í breytingu á útreikningi lífslíkna felst að framreiknaðar eru væntingar um að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast en gamla aðferðafræðin hefur byggt á því að horfa á lífslíkur aftur í tímann.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir nýju aðferðafræðina gefa réttari mynd af stöðu sjóðanna. „Eins og staðan er núna má segja að ungt fólk sé að fá rangar væntingar um réttindi sín, umfram það sem innistæða er fyrir," segir Þórey.

Áhrifin hjá þeim sem eldri eru ættu að verða lítil sem engin. „Í öllum útfærslum sem sjóðirnir hafa verið að velta fyrir sér er nálgunin sú að þetta hafi engin eða óveruleg áhrif á þá sem eru á lífeyri eða eiga stutt eftir í lífeyristöku," segir hún.

Að jafnaði sé ráðgert að breytingin hækki skuldbindingar lífeyrissjóðanna um 10% en það samsvarar hækkun upp á hundruð milljarða króna. Í því samhengi má benda á að eignir samtryggingardeila lífeyrissjóðanna námu tæplega 5.800 milljörðum í lok september.

Myndist 10% halli á tryggingarfræðilegri stöðu einstaka lífeyrissjóða ber þeim að að bregðast við með mótvægisaðgerðum, sem gætu falið í sér að lækka þurfi réttindi sjóðfélaga. Tryggingarfræðileg staða segir til um hvort væntar framtíðareignir sjóðanna dugi fyrir þeim loforðum sem þeir hafa gefið sjóðfélögum um greiddan lífeyri.

Góð ávöxtun bæti stöðuna

Þórey segir núna að mörgu leyti góðan tímapunkt til að taka upp nýja lífslíkukerfið. „Flestir sjóðirnir eru með fremur góða tryggingarfræðilega stöðu núna. Það eru réttu aðstæðurnar til þess að taka upp svona breytingu þegar ávöxtunin hefur verið mjög góð."

Ávöxtun lífeyrissjóðanna síðustu ára hefur verið nokkuð umfram 3,5% raunávöxtunarviðmiðið.

Þá hafi iðgjöld í lífeyrissjóði verið hækkuð á undanförnum árum svo að sjóðfélagar sem eru snemma á starfsævinni ættu að geta horft bjartsýnir til efri áranna. „Yngra fólk ætti að hafa væntingar um að geta byggt upp góðan lífeyri," segir Þórey.

Þórey bendir einnig á að aukinn sveigjanleiki sé einn af þeim þáttum sem séu til skoðunar í samhengi við breytingar á lífeyrisaldri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .