Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, gera ráð fyrir því út breiðsla kórónuveirunnar muni leiða til þess að tekjur í farþegaflugi í heiminum dragist saman um allt að 113 milljónum dollara. Þetta kemur fram í spá samtakanna sem birt var fyrr í gær. Spáin gerir ráð fyrir ríflega þrefalt meira tekjutapi en síðasta spá sem birt var fyrir tveimur vikum síðan.

Að mati hagfræðings IATA gæti staðan reynst mörgum flugfélögum erfið en fyrr í dag varð breska flugfélagið Flybe gjaldþrota.

„Það er mikið af flugfélögum sem eru með tiltölulega lág hagnaðarhlutföll og háar skuldir. Sjóðstreymisáfall eins og þetta getur klárlega komið fleiri félögum í mikil vandræði,“ sagði Brian Pearce hagfræðingur IATA.

Þrátt fyrir að spá IATA geri ráð fyrir miklu tekjutapi er spábilið þó nokkuð stórt en neðri mörk gera ráð fyrir tekjutapi upp á 63 milljarða dollara. Það myndi samt sem áður leiða til þess að tekjur í farþegaflugi verði um 11-19% lægri en í spá IATA fyrir árið í ár og birt var í desember. Gera neðri mörkin ráð fyrir að það takist að halda útbreiðslu veirunnar í skefjum á meðan neðri mörkin gera ráð fyrir heimsfaraldri. Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir því að flugmarkaðurinn nái sér svo aftur á strik um seinni hluta sumars.