*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 1. nóvember 2015 08:35

Hundruð milljóna dollara markaður

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds vinnur að útgáfu fjölspilunarleiksins Starborne:Sovereign Space.

Kári Finnsson

Von er á því að fjölspilunarleikurinn Starborne: Sovereign Space verði gefinn út á næsta ári en leikurinn er unninn af íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Solid Clouds sem hefur verið starfandi frá árinu 2013. Að sögn Stefáns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, er tuttugu ára saga á bak við leikinn en margir af þeim sem eru á bak við fyrirtækið kynntust í versluninni Nexus í kringum spilun herkænskuspila. „Þá var ég með herkænskuleik í gegnum póst þar sem spilarar fengu umferðir og stöðu sína í gegnum bréfsendingar,“ segir Stefán. „Í gegnum það myndað­ist kjarni teymisins.“ 

Fimm til sex sambærileg fyrirtæki

Að sögn Stefáns hóf fyrirtækið fyrstu prófanir með leikinn í maí á þessu ári en búist er við því að leikurinn fari í loftið seinnipartinn á næsta ári. Fyrst um sinn yrði hann einungis fáanlegur á PC, Mac og Linux en síðar meir verður hægt að spila hann t.d. á spjaldtölvum og snjallsímum. Á fagmálinu flokkast leikurinn sem rauntímafjölspilunarleikur (e. Massively multiplayer online real-time strategy game) en Stefán segir að til mikils sé að vinna á markaði fyrir slíka leiki. Í kringum fimm til sex sambærilegir tölvuleikir eru þegar vinsælir á markaðnum. „Þegar við skoðuðum þetta í fyrra þá var heildarvelta á meðal sambærilegra tölvuleikjafyrirtækja að nálgast 600 milljónir Bandaríkjadollara. Þú verður að athuga að þetta er bara lítil sylla á mjög stórum tölvuleikjamarkaði. Miðað við aukningu síðustu ára þá teljum við að markaðurinn nálgist milljarð dollara í veltu á þessu ári. Ef maður kemst í þennan hóp þá er eftir mjög miklu að sækja,“ segir Stefán og bætir því við að fyrirtækið hafi ráðist í miklar markaðsrannsóknir frá stofnun og telur leikinn fylla í sérstakt skarð á þessum markaði en hann óx um 73% í tekjum talið á árinu 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Ítarlegt viðtal við Stefán þar sem leiknum er lýst nánar er að finna á vef Leikjafrétta.