Þrír stjórnarmenn og framkvæmdastjóri gamla Landsbankans, LBI, gætu fengið hundruð milljóna í bónusgreiðslur á komandi árum, samkvæmt bónuskerfi sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í apríl síðastliðnum. Þetta kemur fram í frétt DV .

Kolbeinn og Ársæll eiga von á greiðslum

Þeir stjórnarmenn sem eiga rétt á greiðslum eru stjórnarmennirnir Kolbeinn Árnason, Richard Katz og Christian Anders Digermose. Auk þeirra á Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI von á bónusgreiðslum.

Eiga greiðslurnar að virka sem hvati á þá að hámarka virði óseldra eigna félagsins fyrir kröfuhafana sem tóku við stjórn félagsins í lok síðasta árs í kjölfar þess að slitabúið lauk nauðasamningum. Tekur DV dæmi um að ef greiðslurnar nema tveim milljörðum króna í heildina þá sé það um 1% af núverandi heildareignum félagsins.

Lög um hámarksbónusgreiðslur eiga ekki við

Kolbeinn er lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, en auk væntanlegra bónusgreiðslna þá fær Kolbeinn um 23 milljónir króna í þóknun á ári fyrir stjórnarsetu í LBI, sem miðast við hámarksvinnu sem nemur 40 dögum á almanaksári.

Eins og fram hefur komið í fréttum um bónusgreiðslur til starfsmanna Kaupþings, eiga lög um hámarksbónusgreiðslur í fjármálageiranum sem miðast við 25% af heildarlaunum starfsmanna, ekki við um NBI.