*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 21. júní 2021 23:31

Hundruð milljóna kaupréttir hjá Play

Birgir Jónsson, forstjóri Play, hefur kauprétt að bréfum Play fyrir yfir 200 milljónir á verði sem er undir útboðsgengi félagsins.

Ingvar Haraldsson
Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Eyþór Árnason

Stjórnendur Play hafa rétt til að kaupa hluti í Play fyrir um 378 milljónir króna á næstu árum sem eru 605 til 673 milljóna króna virði miðað við verðbil hlutafjáraútboði félagsins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skráningarlýsingu Play sem birt var í dag. Stjórnendur Play geta því hagnast um nærri 300 milljónir króna haldist hlutabréfaverð Play á áþekkum slóðum og í hlutafjárútboðinu. Samningarnir eru sagðir hluti af starfskjörum stjórnenda Play. 

Í hlutafjárútboði Play býðst fjárfestum að kaupa hluti í flugfélaginu á 18-20 krónur á hlut en útboðið hefst á fimmtudaginn, sama dag og fyrsta áætlunarflug Play til London hefst.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, á kauprétt að 13,63 milljónum hluta á genginu 16 krónur á hlut. Birgir hefur því rétt til að kaupa hluti í Play fyrir um 218 milljónir króna á þvi gengi. Birgi er heimilt að nýta 50% kaupréttarins efir þrjú ár og hin 50% eftir fjögur ár. Kaupréttur Birgis eru sagður háðir vissum skilyrðum.

Í skráningarlýsingunni kemur fram að Morus ehf., fjárfestingafélag Birgis eigi nú 3,15 milljónar hluti í Play sem eru um 57-63 milljóna virði miðað við verðbilið í útboðinu. 

Því til viðbótar hefur félagið gert kaupréttarsamninga við stjórnendur og aðra lykilstarfsmenn um rétt til að kaupa samtals 20 milljónir hluti á genginu 8 krónur á hlut sem er 56-60% undir útboðsgenginu. Hægt er að nýta þá kauprétti frá apríl á næsta ári og fram til apríl árið 2023. Á því tímabili býðst lykilstarfsmönnum Play að kaupa hluti í Play fyrir samtals 160 milljónir króna en miðað við útboðsgengi félagsins eru hlutirnir nú 360 til 400 milljóna virði. Ekki kemur fram hvernig kaupréttirnir á genginu 8 krónur á hlut skiptast milli stjórnendanna félagsins. 

Jakobsson Capital verðmat hluti í Play á 31 krónu á hlut þó tekið væri fram að óvissan væri töluverð. Gangi spá Jakobsson Capital eftir gæti Birgir nær tvöfaldað fjárfestingu sína í félaginu miðað við að hann nýti kaupréttina á næstu fjórum árum á genginu 16 krónur á hlut og lykilstarfsmennirnir nær fjórfaldað fjárfestingu sína í Play sé miðað við gengið 8 krónur á hlut.

Alls hefur félagið því gert kaupréttarsamninga við starfsmenn upp á 33,63 milljónir hluta í Play. Þá hefur stjórn Play heimild til að gera kaupréttarsamningi við starfsmenn upp á 13,86 milljónir hluta til viðbótar og því gætu kaupréttir alls náð til 47,5 milljóna hluta. Alls nema kaupréttirnir um 8% hlut í Play verði þeir nýttir að fullu samkvæmt skráningarlýsingunni.

Stikkorð: Birgir Jónsson Play