Verði ný umferðarlög samþykkt á Alþingi óbreytt má gera ráð fyrir því að kostnaður upp á hundruð milljóna lendi á bílaleigum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), Jóhannes Þór Skúlason segir að bílaleigur geti ekki velt sektum út í verðlagið á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar ef umferðarlögin verði samþykkt óbreytt. Þá geti breytt fyrirkomulag innheimtu hraðasekta úr öryggismyndavélum kostað bílaleigur hundruð milljóna.

Í nýju lögunum er gert ráð fyrir að eigandi ökutækis muni bera hlutlæga ábyrgð á hraðasektum sem stofnast við þau brot sem hraðamyndavélar ná að fanga.

„Við teljum óeðlilegt að bílaleigur séu gerðar ábyrgar fyrir hegðun sinna kúnna og sitji uppi með þann kostnað sem þær hafi ekki möguleika á að innheimta," segir Jóhannes Þór.