Hagnaður Bílastæðasjóðs, sem meðal annars rekur sjö bílastæðahús í miðbæ Reykjavíkur, nam 87 milljónum króna í fyrra og var arðsemi eigin fjár 7,4% á árinu. Það er töluvert betri niðurstaða en undangengin ár en arðsemi eigin fjár var 1,9% á árinu 2010, 2% árið 2009 og 3,8% árið 2008.

Árið 2010 var hagnaður sjóðsins rétt rúmar 22 milljónir króna. Sjóðurinn er í eigu Reykjavíkurborgar og hefur tekjur af stöðu- og miðamælum, aukastöðugjöldum, stöðubrotagjöldum og bílastæðahúsum.

Stöðu- og miðamælar gáfu mest af sér á árinu 2011, um 284 milljónir króna. Aukastöðugjöld, eða svokallaðar stöðumælasektir þegar ekki er greitt í stöðumæli, námu 204 milljónum. Tekjur sjóðsins vegna stöðubrotagjalda, t.d. þegar sektað er ef bíl er lagt undir bannmerki, stöðvað uppi á gangstétt eða of nærri gangbraut námu 104 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.