Talið er að um hundruð ólöglegra íbúða sé í útleigu til ferðamanna. Dæmi eru að fólk á atvinnuleysisskrá afli sér tekna með þessum hætti. Í flestum tilvikum eru ekki borgaði skattar af starfseminni.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Fréttablaðið í dag þetta varða samkeppni innan ferðaþjónustunnar ekki síður en öryggismál. Rifjað er upp í blaðinu að fyrir tveimur árum létu Samtök ferðaþjónustunnar kanna hve mörg ólögleg gistipláss verið væri að leigja út. Leiddi könnunin í ljós að leyfislausir gististaðir voru með meira gistipláss en tvö stærstu hótel Reykjavíkur til samans. Þessum upplýsingum var komið áleiðis til stjórnvalda en að mati Ernu var ekki gengið nógu hart að þeim að sækja um gistileyfi. Nú er talið að ólöglegum gistirýmum hafi þó fjölgað verulega á síðustu tveimur árum á sama tíma og ferðamönnum til Íslands hafi fjölgað úr 460 þúsund í 650 þúsund á ári.

Erna segir jákvætt að til sé fjölbreytt úrval af gistimöguleikum hér á landi. Hins vegar verði þeir sem reki slíka þjónustu að vera með tilskilin leyfi og taka þátt í íslensku þjóðfélagi.

Fréttablaðið bendir á að fyrir stuttu hafi vefsíðan airbnb.is kynnt sérstaklega þann möguleika að atvinnulaust ungt fólk leigi út íbúðir sínar til ferðamanna. Á heimasíðu airbnb.is eru um 600 gistipláss. Unnur Halldórsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, segir í samtali við blaðið að komið hafi í ljós að nokkur hópur þeirra sem hafi nýtt sér síðuna sé á atvinnuleysisskrá án þess að gefa upp leigutekjur. Hún segir þessa ólöglegu starfsemi koma niður á skattgreiðendum og vill að hún verði upprætt.