Jeff Bezos forstjóri Amazon hefur ákveðið að segja upp hundruðum starfsmanna fyrirtækisins, flestum í höfuðstöðvunum í Seattle. Er ákvörðunin sögð vera gerð til þess að fyrirtækið geti einblínt á þá starfsemi sem mesti vöxturinn er í.

Munu uppsagnirnar vera í deildum sem sjá um sölu á leikföngum, bókum og matvöru, en í staðinn er stefnt að frekari ráðningum í Alexa, AWS og stafrænu skemmtiefni ýmis konar segir í frétt CNBC . Fyrirtækið hefur á síðustu árum búið til um 130 þúsund störf, en sú tala inniheldur ekki þá 90 þúsund starfsmenn sem bættust við með kaupunum á Whole Foods.

Í dag eru um 4.000 starfsmenn í höfuðstöðvunum í Seattle, en fyrirtækið segist ætla að reyna að finna starfsmönnunum sem sagt er upp pláss í þeim deildum þar sem vöxtur er.

Á síðasta ári tók ráðningarbann gildi hjá félaginu sem leitar sér að staðsetningu fyrir nýjum höfuðstöðvum. Hefur fyrirtækið fækkað mögulegum staðsetningum úr 238 tilboðum frá 54 mismunandi svæðum niður í 20 staða úrtak. Mun borgin sem vinnur tilboðsferlið sem félagið setti upp fá um 5 milljarða dala fjárfestingu og um 50 þúsund störf að því er fyrirtækið greinir frá.