Það ætti e.t.v. ekki að koma á óvart að stærstu ráðstefnur heims eru einnig nokkurs konar kaupstefnur, þar sem framleiðendur, hönnuðir, heildsalar og smásalar koma saman til að skoða nýjustu tæki og vörur og velta fyrir sér hvaða stefnu viðkomandi geiri mun taka á næstu tólf mánuðum.

Consumer Electronics Expo, eða CES, í Bandaríkjunum er ein sú frægasta í tæknigeiranum, en hún hefur verið haldin að minnsta kosti einu sinni á ári allt frá árinu 1967. Fyrstu áratugina voru tvær ráðstefnur haldnar á ári, vetrar- og sumarráðstefna, en frá árinu 1998 hefur ráðstefnan verið haldin einu sinni á ári. Lengi vel var ráðstefnan haldin í mismunandi borgum, en vegna þess hversu stór hún er þá eru fáir staðir sem geta valdið verkefninu og frá 1998 hefur ráðstefnan verið haldin í Las Vegas. Gestir á ráðstefnunni í fyrra voru um 140.000 talsins, en það sem gerir CES sérstaka er það hversu mörg merkileg tæki hafa fyrst litið dagsins ljós á ráðstefnunni.

Má þar t.d. nefna VCR myndbandstækið og myndbandsupptökuvélina, háskerpusjónvarpið, plasmasjónvarp og Blue-ray diskinn. Fyrir áhugamenn um tæki og tækni hefur CES því fyrir löngu markað sér sess sem einn af hápunktum ársins.
Risaráðstefna í Hanover Hvað varðar fjölda gesta nær CES hins vegar ekki með tærnar þar sem CeBIT ráðstefnan í Þýskalandi er með hælana. Ráðstefnan, sem haldin hefur verið í Hanover frá árinu 1970 er tækniráðstefna eins og CES, með meiri áherslu á tölvu- og upplýsingatækni. Í fyrra voru gestir á ráðstefnunni 334.000 talsins.

Nánar er fjallað um málið í Fundum og ráðstefnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .