*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Erlent 2. apríl 2020 20:32

Hundruð þúsunda í launalaust leyfi

Starfsmenn bandarískra verslunarkeðja sendir í launalaust leyfi vegna lokana verslana og tekjufalls.

Ritstjórn
Yfir 600 verslunum Macy's hefur verið lokað vegna heimsfaraldursins, og flestir af 125 þúsund starfsmönnum verslunarrisans sendir í launalaust leyfi.
epa

Macy‘s, GAP og fleiri bandarískar verslunarkeðjur munu frá og með þessari viku byrja að senda hundruð þúsunda starfsmanna sinna í launalaust leyfi vegna verkefnaleysis sökum lokana í tengslum við kórónufaraldurinn.

Macy‘s eitt og sér áformar að bróðurpartur sinna yfir 100 þúsund starfsmanna verði kominn í slíkt leyfi í lok vikunnar, en sölutekjur verslunarkeðjunnar hafa dregist verulega saman vegna lokana yfir 600 verslana síðastliðnar tvær vikur. Aðeins örfáir starfsmenn verði eftir til að viðhalda grunnstarfsemi félagsins.

Staðan er svipuð hjá GAP, 80 þúsund af 130 þúsund starfsmönnum verða sendir í leyfi. Starfsmenn fyrirtækjanna munu þó halda þeim heilbrigðistryggingum sem eru hluti launakjara þeirra meðan á leyfinu stendur.

Eru forsvarsmenn fyrirtækjanna ósáttir við að vera „skildir útundan“ í tveggja billjóna dollara aðgerðapakka sem yfirvöld hafa kynnt til leiks til að aðstoða fyrirtæki við að takast á við rekstrarerfiðleika vegna COVID-19.

Stikkorð: Macy's GAP