Lögreglan í Leicester-skíri í Englandi ákvað að senda ekki teymi sérfræðinga til að rannsaka vettvang innbrota í hús þar sem götunúmerið er oddatala. Þeir sem voru svo óheppnir að búa í slíkum húsum á því þriggja mánaða tímabili sem tilraunin stóð yfir máttu því ekki eiga von á því að innbrot í hús þeirra yrðu rannsökuð að fullu. BBC greinir frá þessu.

Ráðist var í umrædda tilraun eftir útgáfu skýrslu þar sem fram kom að af 1.172 tilraunum til innbrota í Austur-Miðhéruðum Englands náðist aðeins að koma upp um 33 innbrotsþjófa. Yfirleitt er raunin sú að á vettvangi slíkra glæpa eru lítil sönnunargögn sem hægt er að nota til að rannsaka innbrotið.

„Nú þegar við stöndum frammi fyrir minni fjárveitingum en áður er það enn meira áríðandi að gæta þess að við gerum það besta við tíma rannsóknarlögreglumanna,“ hefur BBC eftir Jo Ashworth, yfirmanni hjá rannsóknarteymi lögreglunnar.

Stjórnmálamenn á svæðinu og yfirmenn lögreglunnar á landsvísu voru ekki upplýstir um tilraunina fyrirfram. Haft er eftir Jonathan Ashworth, þingmanni frá svæðinu, að tilraunin hafi verið fáránleg og út í bláinn.