Gengi hlutabréfa bresku verslunarkeðjunnar Dobbies, sem sérhæfir sig í garðvörum, hefur hækkað töluvert síðustu daga eftir að skoski auðkýfingurinn Sir Tom Hunter keypti 3,69% hlut í fyrirtækinu.

Talið er að West Coast Capital, fjárfestingafélag Hunters, hafi greitt tvær milljónir punda eða 276 milljónir íslenskra króna fyrir hlutinn og að yfirtökutilboð geti verið væntanlegt.

Hunter og Baugur unnu saman að 311 milljón punda yfirtöku á Wyevale Garden Centres, sem einnig sérhæfir sig í garðvörum og er stærsta slíka fyrirtækið í Bretlandi, og segja sérfræðingar að Dobbies falli vel að rekstri Wyevale.

Sérfræðingar benda einnig á að samþjöppun á garðvörumarkaði í Bretlandi sé væntanleg og að samlegðaráhrif séu töluverð ef Wyevale og Dobbies sameinast.

Dobbies rekur 17 verslanir í Bretlandi og fyrirtækið, sem er skráð á AIM-markaðinn í London, er verðmetið á 81 milljón punda, eða rúmlega 11 milljarða króna.

Í frétt breska dagblaðsins The Daily Mail segir að Hunter og ríku íslensku "vinir" hans ættu að að hafa efni á að kaupa Dobbies, sem er mun minna fyrirtæki en Wyevale. Hunter og Baugur kláruðu yfirtökuna á Wyevale í gær.