Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Eignarhaldsfélagsins Kolku, sem meðal annars á Emmessís, á 50% hlut í ísbúðum Huppu. Skrifað undir kaupsamning í byrjun ársins líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Í samrunatilkynningunni kemur fram að fjórir af tíu eigendum ísbúða sem eftirlitið ræddi við hafi haft áhyggjur af áhrifum samrunans á samkeppni en Huppa og Emmessís hafa frá upphafi átt í samstarfi um framleiðslu á þeim ís sem Huppa selur.

Sjá einnig: Kaupa helmingshlut í Huppu

Samrunaðilar töldu hins vegar ekki að samruninn myndi leiða til útilokandi áhrifa enda væru nær engar aðgangshindranir inn á ísmarkaðinn. Margar ísbúðir hefðu opnað með góðum árangri undanfarin ár og nefna þau Valdís og Skúbb sem dæmi. Það kosti lítið, líklega ekki nema um 20 milljónir króna, að opna ísbúð.

Auk þess geti ísbúðir auðvelda verslað við aðra en Emmessís kjósi þau svo. Þá hafi Emmessís augljósa hagsmuni af því að selja sem flestum ísbúðum ís og þar með auka umsvif fyrirtækisins.

Undir þessi sjónarmið tók Samkeppniseftirlitið sem taldi ekki ástæðu til að aðhafast ekki vegna samrunans.

Vaxið umfram væntingar frá 2013

Fyrsta ísbúð Huppu var stofnuð árið 2013 á af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur, og mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni. Síðan þá hafa umsvifin aukist í takt við auknar vinsældir. Sjötta ísbúðin var opnuð í Hafnarfirði fyrir skömmu og stefnt er að því að opna fleiri.

„Þetta er orðið miklu stærra en okkur hefði órað fyrir," segir Telma í viðtali við Viðskiptablaðið um kaupin. Í ákvörðuninni kemur fram að samrunaaðilar áætli gróflega að hlutdeild Huppu á ísbúðamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu væri um 20-25%.

Kolka á einnig 1912 sem á heildsölurnar Nathan og Olsen og Ekruna.