Ísbúð Huppu mun nú á haustmánuðum opna nýja ísbúð á Seltjarnarnesi. ­Verður ísbúðin við Orkustöðina að Suðurströnd, en húsnæðið hýsti áður útibú blómabúðarinnar Bjarkarblóma og þar áður bensínstöð Orkunnar. Telma Finnsdóttir, einn stofnenda og eigenda Ísbúðar Huppu, segir eigendahópinn hafa haft augastað á hentugu húsnæði í Vestur­bænum eða á Seltjarnarnesi í þó nokkurn tíma.

„Svo bauðst okkur húsnæðið á Suðurströndinni og okkur fannst það tilvalið, bæði hvað varðar staðsetningu og stærð húsnæðisins. Við ákváðum því að slá til og hlökkum til að geta boðið Vesturbæingum og Seltirningum upp á Huppuís." Hún segir að dagsetning opnunar liggi ekki endanlega fyrir enn sem komið er, en allt kapp sé lagt á að opna ísbúðina eins fljótt og kostur er.

Frekari fjölgun ísbúða í kortunum

Ísbúðin á Seltjarnarnesi verður sú áttunda í röðinni hjá Ísbúð Huppu og sú þriðja sem opnuð verður á þessu ári. Fyrir rekur fyrirtækið ísbúðir í Reykjavík, Garðabæ, Hafnarfirði, Selfossi og Borgarnesi. Ísbúð Huppu var stofnuð árið 2013 af fyrrnefndri Telmu og Eygló Rún Karlsdóttur, sem þá voru 23 ára, og ­mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráins­syni og Sverri ­Rúnarssyni. ­Dregur ísbúðin nafn sitt af mjólkur­kúnni Huppu, sem búsett var á bóndabæ ömmu og afa eins stofnendanna. Frá þeim tíma hefur Huppa vaxið jafnt og þétt og er í dag orðin ein stærsta ísbúðakeðja landsins.

„Þetta er orðið mun stærra en við hefðum nokkurn tímann þorað að vona," segir Telma. „Í upphafi sáum við eingöngu fyrir okkur að láta gamlan draum rætast og opna ísbúð á Selfossi. Fljótlega fundum við þó fyrir því að margir Reykvíkingar voru að gera sér ferð á Selfoss til þess að fá sér ísinn okkar. Því fórum við að hafa opin augu fyrir húsnæði í Reykjavík og árið 2015 bauðst okkur fornfrægt húsnæði í Álfheimum 4 sem hefur frá árinu 1979 hýst ísbúð. Sumarið 2015 opnuðum við svo Huppu þar og fengum frábærar viðtökur. Síðan hefur boltinn haldið áfram að rúlla og við fögnum því hvað ísbúðunum hefur fjölgað."

Telma segir fyrirtækið hafa uppi áform um að fjölga Huppu-ísbúðunum enn frekar þegar tækifæri gefst. „Við erum alltaf með augun opin fyrir ­hentugum staðsetningum víðs vegar um land. Ef við komum auga á gott tækifæri hoppum við á það." Þessa stundina sé þó einblínt á að standa eins vel að opnun ísbúðarinnar á Seltjarnarnesi og kostur er.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .