Kaupþing
Kaupþing
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Einbýlishús Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjórastjóra Kaupþings á Íslandi, í Kópavogi hefur verið sett á nauðungaruppboð. Uppboðið er auglýst í Lögbirtingablaðinu. Það er sýslumaðurinn í Kópavogi sem lagði fram beiðnina vegna kröfu upp á 342 milljónir króna.

Í DV í dag er fjallað um málið. Þar kemur fram að húsið er tæpir 330 fermetrar og fasteignamat þess tæpar 70 milljónir króna.

Ingólfur fluttist eins og fleiri fyrrverandi stjórnendur hjá Kaupþingi lögheimili sitt til Lúxemborgar eftir að bankinn fór í þrot í október árið 2008 og hefur hann þar í félagið við nokkra þeirra rekið ráðgjafafyrirtækið Consolium. Hann var jafnframt einn þeirra fyrrverandi stjórnenda sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í maí í hittifyrra að kröfu sérstaks saksóknara vegna rannsóknar embættisins á lánveitingum Kaupþings og meintri markaðsmisnotkun í aðdraganda hruns. Ingólfur var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.

Þetta er ekki eina málið gegn Ingólfi en slitastjórn Kaupþings barðist fyrir því lengi að fá aðgang að iðnaðarhúsnæði við Smiðshöfða í Reykjavík sem er í eigu hans og Steingríms P. Kárasonar, fyrrverandi forstöðumanni áhættustýringar Kaupþings. Grunur lék á að þar geymdu þeir Ingólfur og Steingrimur vínbirgðir upp á milli 200 til 300 milljónir króna. Eignin var kyrrsett í fyrra og fékk slitastjórnin að komast inn í húsið rétt eftir áramótin. Ekki reyndist deigan dropa þar að finna. Þvert á móti leyndust þar tvær búslóðir og bilaður átta ára gamall bíll.

Með milljónir í laun en skuldaði milljarða

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Þá kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis að Ingólfur hafði á bilinu sex til tæpra 13 milljóna króna að meðaltali í heildarlaun hjá Kaupþingi á árunum 2004 til 2008. Hæst fóru launin árið 2006. Inni í heildarlaununum voru kaupakar sem greiddir voru út tvisvar á ári.

Að því viðbættu fékk Ingólfur eins og aðrir stjórnendur hjá Kaupþingi lán hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum. Fram kemur í þriðja bindi Rannsóknarskýrslunnar að árið 2008 hafi lán til Ingólfs numið tæpum 5,1 milljarði króna. Eins og kunnugt er felldi stjórn bankans niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna Kaupþings af lánunum í september 2008, örfáum dögum fyrir bankahrun. Skilanefnd og slitastjórn bankans rifti þeirri ákvörðun eftir að hún tók við þrotabúinu.