Ákveðið hefur verið að Hús og Heilsa sameinist EFLU verkfræðistofu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá EFLU.

Hús og heilsa er fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem sérhæfir sig í rannsóknum og ráðgjöf á innivist, raka og myglu í byggingum. Tilgangur fyrirtækisins var að vekja almenning og stjórnvöld til umhugsunar um mikilvægi innilofts, sérstaklega þar sem Íslendingar dvelja mikið innandyra. Fyrirtækið hefur verið leiðandi á þessu sviði. EFLA verkfræðistofa hefur langa reynslu í greiningu skemmda í byggingum, stjórnun viðhaldsaðgerða og hefur innanborðs nokkra af helstu sérfræðingum Íslands í eðlisfræði bygginga og greiningu á rakamyndun með öllum þeim hættum sem slíku fylgir.

Með þessari sameiningu verður til nýtt og öflugt fagsvið innan Byggingarsviðs EFLU sem ber nafnið Hús og heilsa. Þetta fagsvið mun starfa þverfaglega með öðrum sviðum EFLU við að rannsaka og veita ráðgjöf um vellíðan notenda í byggingum. Fyrstu verkefni nýs fagsviðs er að halda áfram að óbreyttu rannsóknum og ráðgjöf vegna raka, myglu og innilofts og stefnan svo sett á heilstæðri ráðgjöf er varðar heilbrigði notenda í byggingum.