Guðlaugur Sverrisson, fulltrúi Framsóknarflokks í stjórn RÚV, nefndi húsnæði Osta- og smjörsölunnar að Bitruhálsi 2 sem mögulegt húsnæði undir starfsemi stofnunarinnar, á fundi hjá húsnæðismálanefnd RÚV á dögunum. Þetta staðfestir Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, í samtali við Kjarnann í dag en Ingvi situr einnig í húsnæðismálanefndinni.

Húsnæði Osta- og smjörsölunnar við Bitruháls er í eigu Kosts ehf., sem er félag í eigu Auðhumlu svf., sem er jafnframt eigandi Mjólkursamsölunnar. Auðhumla er í eigu um sjö hundruð mjólkurframleiðanda í landinu. Húsið er rúmlega 4.700 fermetrar að stærð, en því fylgir ríflega 33.000 fermetra lóð. Samkvæmt Þjóðskrá hljóðar fasteignamat hússins upp á röskar 705 milljónir króna og brunabótamat upp á 940 milljónir.