Húsasmiðjan verður frá og með morgundeginum hluti af dönsku byggingavöruverslanakeðjunni Bygma. Nafni Húsasmiðjunnar verður ekki breytt þrátt fyrir að aðrir eigendur séu komnir að rekstrinum.

Landsbankinn tók Húsasmiðjuna yfir eftir bankahrunið og setti eignarhald hennar inn í eignarhaldsfélagið Vestia. Með sölunni á Vestia fór Húsasmiðjan svo yfir til Framtakssjóðs Íslands. Eigendur Bygma keyptu svo Húsasmiðjuna í desember í fyrra. Kaupverð nam 3,3 milljörðum króna og fólu þau í sér að Bygma greiddi 800 milljónir króna í reiðufé á móti yfirtöku á skuldum upp á 2,5 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu að Bygma hafi verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan árið 1952. Fyrirtækið er aðeins fjórum árum eldra en Húsasmiðjan, sem var stofnuð árið 1956. Hún var sömuleiðis í eigu sömu fjölskyldunnar fram til ársins 2003.

Verslanir og starfsfólk Húsasmiðjunnar verða með sameiningunni hluti af yfir 2.100 manna starfsliði Bygma í 93 verslunum í Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum og nú Íslandi. Þá segir í tilkynningunni að með sameiningu við Bygma fylgi mikil tækifæri á hagstæðari innkaupum til hagsbóta fyrir íslenska neytendur og byggingariðnaðinn.

Sigurður Arnar Sigurðsson og Peter H. Christiansen, stjórnarformaður Bygma
Sigurður Arnar Sigurðsson og Peter H. Christiansen, stjórnarformaður Bygma
Sigurður Arnar Sigurðsson og Peter H. Christiansen, stjórnarformaður Bygma.