Húsasmiðjan tapaði 309 milljónum króna á fyrstu sjö mánuðum þessa árs en fjárhagsáætlun fyrirtækisins hafði gert ráð fyrir 93 milljóna króna hagnaði. Sala á vörum var 9% undir því sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun og rekstrartekjur voru 12% undir áætlun. Þetta kemur fram í gögnum sem áhugasamir kaupendur að Húsasmiðjunni fengu afhent en fyrirtækið er sem stendur í söluferli. Viðskiptablaðið hefur séð umrædd gögn.

Undir áætlunum Húsasmiðjan seldi vörur fyrir 6,9 milljarða króna á tímabilinu. Það er 9% undir fjárhagsáætlun ársins sem gerði ráð fyrir sölu upp á 7,6 milljarða króna, eða 700 milljónum króna meira en selt var fyrir. Framlegð félagsins var 2,6 milljarðar króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 2,9 milljarða króna framlegð. Munurinn er neikvæður um 12%. Tap fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 45 milljónir króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir hagnaði upp á 274 milljónir króna. Alls tapaði Húsasmiðjan 309 milljónum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins en áætlunin hafði gert ráð fyrir 93 milljóna króna hagnaði.

Húsasmiðjan hefur því samtals tapað um 1,3 milljarði króna á síðustu tveimur og hálfu ári. Á sama tíma var 11,2 milljörðum króna af skuldum fyrirtækisins breytt í nýtt hlutafé.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.