Húsasmiðjan vígði í gær nýja stórverslun fyrir fagmenn og timbursölu í Kjalarvogi 12, rétt neðan við verslun Húsasmiðjunnar í Skútuvogi, til að sinna mikilli eftirspurn sem nú er eftir byggingarvörum. Í staðinn fyrir hina hefðbundnu klippingu borða söguðu Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, og S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, í sundur timburplanka við innganginn áður en gestum var boðið að líta inn í nýju verslunina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í húsnæðinu , verður allt til alls fyrir smiði, pípara, málara og múrara. Jafnframt opnaði samhliða versluninni aksturbúð fyrir timbur og grófari byggingarvöru. Húsasmiðjan er að veðja á Vogabyggð sem sinn framtíðarstað en nýja verslunin er skammt frá mörgum stærstu uppbyggingasvæðunum í Reykjavík þar sem þúsundir íbúða munu rísa á næstunni. Þá er hún ekki fjarri miðbænum sem er vettvangur mikilla framkvæmda um þessar mundir.

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar: „Staðsetningin í Kjalarvogi er frábær og hér í Vogabyggðinni munu byggjast upp ný íbúðar- og atvinnuhverfi; á Kassagerðarreit, í Laugarnesi, á  Ártúnshöfðanum og Bryggjuhverfinu. Við sjáum mikil tækifæri í að þjónusta iðnaðarmennina sem munu reisa þessi nýju hverfi og síðar íbúana á þessu svæði þegar þeir flytja inn. Þá er ekkert launungarmál að Húsasmiðjan hefur lengi stefnt að því að opna timbursölu nær miðborginni, en mikill hluti uppbyggingarinnar á næstu árum verður miðsvæðis. Sú stórverslun sem við opnum núna er sérstaklega ætluð fagmönnum og byggir að mörgu leyti á sambærilegu konsepti og Bygma rekur í Danmörku.

Framtíðarskrifstofur okkar verða hér á efri hæðinni ásamt því að við eigum byggingarétt á vöruhúsi við hlið verslunarinnar. Þá má geta þess að við hönnun bygginganna var lögð áhersla á umhverfismál og hagkvæma orkunýtingu. Lýsingin er umhverfisvæn LED lýsing frá Ískraft ásamt öflugu orkusparandi hússtjórnarkerfi. Það er þrefalt gler í gluggum og í akstursbúðinni er útsogskerfi í niðurföllum sem flytur úr húsinu þá mengun sem berst frá þeim ökutækjum sem fara um húsið. Það að flytja þjónustukjarnann nær höfninni minnkar einnig töluvert akstur Húsasmiðjunnar með byggingarefni þar sem Grafarholtið var áður dreifingarmiðstöð okkar fyrir timbur á höfuðborgarsvæðinu. Við finnum fyrir því að efnahagslífinu gengur vel og það eru mikil umsvif framundan. Það má segja að Húsasmiðjan sé að koma heim, nú þegar við opnum timbursölu í hverfinu á ný.“